132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í gærdag upplýstist svolítið merkilegt fyrir okkur þingmönnum sem sátum í iðnaðarnefnd. Þar var upplýst eiginlega hvernig ætti að haga þessu þinghaldi. Við vorum líka upplýst um að til stæði að taka málið út með þeim breytingum sem kynntar voru og ekki stæði til að fresta því eða vinna það á annan hátt. Að mínu viti liggur algjörlega ljóst fyrir, hæstv. forseti, að það eru ekki forsetarnir sem stjórna þinginu heldur ráðherrarnir. Þeir skipa fyrir um hvernig hér er gengið til verka og þeir skipa fyrir um hvernig málum er hagað í nefndum og hvernig að þeim er unnið. Þó að þau séu umdeild skiptir afstaða stjórnarandstöðuþingmanna engu máli í málsmeðferðinni. Málin eru einfaldlega afgreidd eftir fyrirskipun ráðherra og ráðin á ráðherraborðinu. Ráðherraræðið er sem sagt algjört.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að stjórn þingsins lýtur þessu ráðherravaldi og við munum að sjálfsögðu neyðast til að sitja undir slíkri stjórn því ekki er ráðgast við stjórnarandstöðuna um þinghaldið. Við munum þurfa að vera hér og ræða málin fram og til baka og að sjálfsögðu munum við gera það. En ekki er mikið verklag á þinginu á þeim sumardögum sem í hönd fara og næsta víst að við verðum hér vafalaust inn í júlímánuð með því lagi sem upp er sett og engan veginn er hægt að hæla stjórn þingsins fyrir þá verkstjórn, hvað þá heldur að skilja hvað ráðherrum gengur til að fara í verkin með þessu lagi, vitandi alveg hvað gerist í þinginu þegar svona er unnið.