132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Finnst hæstv. forseta vera einhver bragur að því að hefja þetta sumarþing á þessum nótum? Er hæstv. forseti stolt af því að sitja hér og stjórna fundi sem hefst á þeim nótum sem nauðsyn er að hefja umræðurnar á?

Hér stöndum við þingmenn og vitum ekki hversu langt þingið á að vera. Við vitum ekkert. Ég vissi ekki fyrr en ég settist í salinn áðan hvort vera ætti fyrirspurnatími á morgun. Við vitum ekki hvort þingið á að starfa á föstudögum eða ekki. Við vitum ekki hvaða mál ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á. Við vitum ekki neitt.

Við vitum ekki neitt til hvers við erum hér, enda virðast stjórnarliðar vera með það á hreinu að valta eigi yfir stjórnarandstöðuna og það á valta yfir hana án þess að líta til hægri eða vinstri með bros á vör og með hlátur í huga. Ekki er annað hægt að segja, frú forseti, en að svona vinnubrögð séu til skammar. Það er ekki bara það að þingið sé niðurlægt, eins og hér hefur verið sagt, lýðræðisleg vinnubrögð eru fótum troðin, lýðræðið er fótum troðið með því að koma svona fram við kjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Það er líka verið að sýna lítilsvirðingu því fólki sem hefur þó kosið okkur til ákveðinna starfa hér. Ég trúi því ekki að þeir sem standa fyrir þessu þinghaldi séu stoltir af því að það skuli þurfa að byrja með slíkum látum og hamagangi. Við vitum ekki, eins og ég segi, hvað morgundagurinn ber í skauti sér, við vitum ekki hvort á að vera kvöldfundur í kvöld. Þetta er ekki forsvaranlegt, það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að vinna við þessar aðstæður.