132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:54]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Um störf þingsins er það helst að segja að lengi getur vont versnað. Ég frétti í þinghléi að hv. iðnaðarnefnd Alþingis, sem ég á sæti í, hefði verið tekin úr sambandi og ráðherrar í ríkisstjórninni tekið að sér verkefni hennar að breyta því frumvarpi sem þar lá fyrir til úrvinnslu. Ég er síðan kallaður á sérstakan aukafund í gær þar sem ruddur hefur verið bekkurinn af stjórnarliðum með einhverja sannfæringu og inn koma þrír nýir þingmenn sem aldrei hafa verið við umfjöllun málsins og rétta upp hönd eins og þeim er sagt án þess að þekkja nokkuð til málsins.

Hvers vegna er þetta gert? Vegna þess að meiri hluti nefndarinnar var algjörlega sannfærður um að málið væri handónýtt. Og þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi getað kokgleypt sannfæringu sína og fyrri yfirlýsingar, til þess trúlega að koma málinu í gegn, þá treysta ekki allir stjórnarþingmenn sér til þess. Svo langt gekk þetta að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður nefndarinnar, treysti sér ekki til að sækja fundinn.

Virðulegur forseti. Að beita hv. alþingismann þvingunum til að láta af sannfæringu sinni að standa gegn máli með alls óskyldum hlutum, þ.e. afdrifum annarra mála, eru óþingleg vinnubrögð og ríkisstjórn Íslands til skammar. Það að þvinga menn frá sannfæringu sinni, þvinga þá til að mæta ekki á nefndarfund er í andstöðu, virðulegur forseti, við sjálfa hugsjónina um þingræði og lýðræði. Ef við í þessum sal berum ekki gæfu til þess að standa vörð um þá grundvallarreglu að ef meiri hluti alþingismanna í þingnefnd hefur sannfæringu fyrir því að mál sé fullkomlega ótækt, eins og allir þeir aðilar sem fyrir nefndina komu höfðu, (Forseti hringir.) skuli málið stöðvað, (Forseti hringir.) ef ekki, þá erum við á slæmri braut.