132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:01]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það kom hér fram hjá hv. þingmanni, formanni iðnaðarnefndar, að ég hefði farið með rangt mál þar sem við töluðum um að það væru ekki stórvægilegar breytingar, eða að það hefði verið haft eftir mér að það hafi verið gerðar smávægilegar breytingar.

Í Morgunblaðinu í dag stendur, með leyfi forseta:

„Birkir segir að smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu í iðnaðarnefnd.“

Og síðan eru þær tíundaðar. En í sömu grein kemur einnig fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, og ég segi það í tilefni af orðum hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hv. þingflokksformaðurinn segir að það hafi verið mat formanns nefndarinnar að það væri tilbúið til afgreiðslu og þess vegna var málið afgreitt út úr nefndinni. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir, með leyfi forseta:

„Það lá fyrir frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins að þeir teldu það gríðarlega þýðingarmikið að þetta mál yrði tekið út [úr nefndinni] núna, og ekki seinna en núna. Þeir mátu það svo að annars gætu öll mál ríkisstjórnarinnar verið í uppnámi.“

Og af hverju er það, virðulegi forseti? Er það vegna þess að stjórnarandstaðan hafi unnið eitthvað sérstaklega gegn þessu máli? Ónei. Það er vegna þess að stór hluti stjórnarliða hefur verið á móti málinu og treysti sér enda ekki til að afgreiða það út úr nefndinni í gær. Það er löngu tímabært að við tökum hér ærlega umræðu um hvernig staðið er að vinnu mála í nefndum þingsins. Það er löngu tímabært að þingflokksformenn og forsetar fari yfir það og að settar séu skýrar reglur.

Hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sagði líka: Stjórnarandstöðunni var boðið að vera við þessa vinnslu á málinu. Þakka skyldi þeim. Hv. formaður iðnaðarnefndar sagði: Tíu fundir, 40 gestir, mikil vinna. Hvað var gert við þessa vinnu? Ekkert. Framsóknarflokkurinn lagði (Forseti hringir.) 108 mál ríkisstjórnarinnar undir til þess að ná þessu eina fram.