132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á hve allt er óljóst um þetta fundahald. Þegar ég hafði samband við skrifstofu Alþingis í gær upp úr hádegi og spurði hvaða mál yrðu á dagskrá í dag þá var ekki hægt að veita nein svör. Það hafði ekki verið ákveðið. Þetta er rétt upp úr hádegi í gær.

En viti menn. Á einum klukkutíma, frá klukkan hálftvö til hálfþrjú gerist margt í senn. Það er myndaður meiri hluti stjórnarflokkanna í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ríkisstjórnarsamstarfið er fært inn í Ráðhúsið. Á sama tíma kemur iðnaðarnefnd Alþingis saman og þröngvar í gegn hinu umdeilda máli hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Um leið verður til dagskrá dagsins í dag með frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Það var vitað að margir framsóknarmenn eru mjög andvígir því frumvarpi. Enda eru það svik á fyrirheitum og loforðum sem Framsóknarflokkurinn hafði gefið um að Ríkisútvarpið skyldi ekki hlutafélagavætt. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það voru svik, svik flokksins um Ríkisútvarpið. Það er staðreynd. Það er líka vitað að sjálfstæðismenn eru mjög óánægðir með frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, eins og það lítur út í dag. Það hafði náðst ágæt og bærileg sátt um frumvarpið þar til ráðherra breytti því á síðustu stigum málsins.

Um þessi mál er bullandi ágreiningur í stjórnarmeirihlutanum. Þetta er vitað. En út á þetta gengu hrossakaupin. Hluti af þeim var krafa formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, um að fá aðgang að kjötkötlunum í Ráðhúsi Reykjavíkur, því það gerist þar sem þessi flokkur kemst að stjórnsýslunni, henni er umbreytt í kjötkatla. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti minnir hv. þingmann á að hann var að ræða fundarstjórn forseta og biður hv. þingmann um að halda sig við það efni.)