132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:19]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að það var haldinn fundur með þingflokksformönnum. Hæstv. forseti gerði það áðan. Boðið var upp á ýmislegt í því sambandi, hvenær við skyldum ljúka fundi í dag, m.a. að stytta þær umræður sem búið var að tilkynna að mundu fara af stað um fundarstjórn forseta en slíku boði var ekki tekið. Menn hafa ekki meiri áhuga á því að greiða fyrir þingstörfum en það að frekar óska þeir eftir því að fimbulfamba um fundarstjórn forseta í stað þess að ræða mál á eðlilegum efnislegum grunni. Þá væri hægt að ljúka fundi á eðlilegum tíma í kvöld. En ekki var áhugi fyrir því á fundi þingflokksformanna með forseta þannig að það er býsna erfitt að reyna að komast að því hverjar óskir stjórnarandstöðunnar eru varðandi þinghaldið. Það koma engar tillögur frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar um það hvernig menn vilja haga störfum eins og t.d. í dag. Það voru menn ekki tilbúnir að segja. Hæstv. forseti er því í erfiðu hlutverki að skipuleggja störf þingsins í dag þegar menn eru ekki tilbúnir til að ræða þetta á einn eða annan hátt.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi að nefndarfundir væru haldnir í þinghléum. Það er mjög venjulegt að menn haldi nefndarfundi og oft hafa þau tilboð komið frá stjórnarandstöðunni, um einstök mál sem stjórnarandstaðan er á móti, að þau verði sett í nefnd í þinghléi. Það er því vandi að reikna út hvað menn vilja í þessu máli. Mega nefndir starfa í þinghléum eða mega þær það ekki að áliti stjórnarandstöðunnar? Ég held að það sé ráð, hæstv. forseti, að við förum að ræða það mál sem ég reikna með að taki lungann úr deginum. Ef við getum treyst á orð þingflokksformanna um að þeir vilji ræða mjög gaumgæfilega Ríkisútvarpið er rétt að fara að byrja á því, hæstv. forseti.