132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er ekki rétt sem kom fram í máli hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að haldinn hafi verið fundur um þá dagskrá sem við erum að ræða hér, alls ekki. Sá fundur sem fór fram í dag — þessi dagskrá lá fyrir áður en fundurinn var boðaður. Ég vona að hún komi upp og dragi þessi orð sín til baka.

Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með fundarstjórn hæstv. forseta, Jónínu Bjartmarz. Mér finnst það með ólíkindum að setja hér dagskrá án þess að reyna að ræða við stjórnarandstöðuna. Maður veltir fyrir sér lýðræðisþroska Framsóknarflokksins að reyna ekki að ræða málin, taka einn málamyndarfund í það. Þó ekki væri annað en ræða málin og kanna hvort hægt sé að nálgast eitthvert samkomulag. Það vinnulag sem hér ríkir er hroki og ekkert annað, maður verður að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forseti sé ekki jafnrökheldur og hæstv. iðnaðarráðherra sem kemur hér með frumvarp og í öllum umsögnum sem koma fram með því er sagt að það sé ótækt. En samt á að keyra það í gegn. Ég verð að lýsa undrun minni á þessari stjórn, að vera hér að ræða Ríkisútvarpið.

Nú sé ég að hæstv. forsætisráðherra er sestur undir ræðu minni. Ég hefði talið nær að hæstv. forsætisráðherra væri að ræða efnahagsmálin en hann forðast það, frú forseti. Ég hefði talið að forsætisráðherra sem ætlar að vera myndugur ætti frekar að ræða efnahagsmál sem virkilega brenna á þjóðinni. Nei, það er Ríkisútvarpið og enn einn skatturinn frá Sjálfstæðisflokknum, það er nefskattur sem þeir vilja leggja á þjóðina. Mér finnst þetta sérkennileg forgangsröðun. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forsætisráðherra sjái að sér. Það er kominn tími til þess á sumarþingi að boða einhverjar efnahagsaðgerðir. Hann malar kannski eins og köttur yfir því ástandi sem hér ríkir en þjóðin er ekki ánægð með að sjá skuldirnar hækka frá mánuði til mánaðar. Mér finnst þetta vera stórundarleg forgangsröðun, frú forseti.

(Forseti (JBjart): Hv. þingmaður hefur ekki enn lokið tíma sínum en forseta finnst ástæða til árétta það að hann kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta.)

Já, ég hef verið að því, frú forseti, og ég skal víkja máli mínu að því. Mér finnst þetta mjög sérkennileg dagskrá sem hæstv. forseti stendur hér að. Ég hef verið að færa rök fyrir því að miðað við efnahagsástand þjóðarinnar hefði ég talið að málefni Ríkisútvarpsins ættu ekki að vera fyrst á dagskrá þegar þing kemur saman eftir hlé. Mér finnst að hæstv. forseti ætti að íhuga þetta. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð á þjóðþingi Íslendinga.