132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:34]
Hlusta

Forseti (Jónína Bjartmarz):

Í tilefni orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og annarra sem hafa tekið þátt í þessari umræðu vill forseti byrja á því að árétta að forseti fundaði í morgun með forsætisnefnd þar sem fulltrúar allra flokka voru, og síðan með formönnum þingflokka, þar sem rædd var sú dagskrá sem liggur fyrir. Það lá fyrir að ætlunin væri sú að halda þingfundi áfram og funda á Alþingi fram eftir kvöldi. Það hefur legið fyrir frá því að forseti fundaði með formönnum þingflokka.

Á dagskrá þessa fundar eru elstu 3. umr. málin og eðlilegt að þau séu á þessari dagskrá hér í dag þegar þing kemur aftur saman eftir frestun. Það liggur líka fyrir að það verða þingfundir út vikuna. Það er gert ráð fyrir að nefndarfundir verði hér reglulegir eftir morgundaginn og það er gert ráð fyrir fyrirspurnum á morgun samkvæmt venju.

Allt þetta lá fyrir á fundi með formönnum þingflokka í hádeginu þegar forseti fundaði með þeim.