132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get vísað til ferils á sölu Landssímans. Nákvæmlega sama setning stóð þegar verið var að hlutafélagavæða Landsímann. Hann er núna seldur.

Ég legg hins vegar áherslu á að við erum hér að takast á um hvort skuli einkavæða Ríkisútvarpið eða ekki. Það er sjálfsagt að reyna að vinna frumvarpið eins vel og hægt er. Sem betur fer hafa orðið nokkrar breytingar á því til batnaðar, á þeirri hrákasmíð sem lá hér fyrir við 1. umr. Það er lofsvert.

En prinsippið stendur. Einkavæðing Ríkisútvarpsins, undirbúa það undir sölu, heimild til að selja verkefni þess, eða í pörtum. Stefna Framsóknarflokksins og flokksþinga hans hefur hljóðað upp á að það skuli ekki gert. Mér hefði þess vegna fundist eðlilegt í svona stórprinsippmáli sem varðar alla þjóðina að ályktanir Framsóknarflokksins hefðu legið með. (Forseti hringir.) Því fyrir mér er það stórmál hvort eigi að einkavæða Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) eins og hér er verið að leggja til.

(Forseti (SP): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutíma.)