132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að karpa við hv. þingmann enn og aftur um hvort með þessu frumvarpi sé verið að leggja til að Ríkisútvarpið verði selt. Ég bendi hv. þingmanni á, og það kemur skýrt fram í 1. gr. frumvarpsins, að sala félagsins eða hluta þess sé óheimil. Það stendur. Það liggur fyrir að það er ekki pólitískur vilji til að selja Ríkisútvarpið.

Ég vona að við þurfum ekki að ræða þessa þætti málsins enn og aftur. Ætli við höfum ekki gert það svona 20–30 sinnum það sem af er þessari umræðu? Einbeitum okkur heldur að öðru.

Hér hefur verið fjallað og spurt um eiginfjárhlutfallið og um fjárþörf Ríkisútvarpsins og bent á að við hefðum fengið fréttir af heldur lakari fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins eftir að þetta minnisblað var lagt fram. Ég get ekki svarað spurningu hv. þingmanns öðruvísi en svo að ég veit ekki betur en að menn ætli að standa við það sem fram kemur í minnisblaði frá hæstv. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra sem kveður á um að eiginfjárhlutfall hins nýja félags skuli vera í 10%, 500 millj. kr. Sé nauðsynlegt að uppfæra þessar tölur með tilliti til þeirra frétta sem hv. þingmaður vísaði til, þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en að það verði gert.