132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var fyrir matarhlé í miðri ræðu minni um Ríkisútvarpið hf., sem ég lýsti yfir að væri þó einungis Ríkisútvarpið hf. að nafninu til því að hér er auðvitað ekki um eðlilegt hlutafélag að ræða, enda ekki gert ráð fyrir því samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu að þetta félag eða fyrirtæki verði rekið með hagnaðarvon í brjósti. Ég var að fjalla lítillega um fjármál stofnunarinnar, á hvern hátt fjármálunum væri komið og hversu lágt eiginfjárhlutfallið væri orðið og hélt því fram, lýsti því hér yfir að ég liti svo á að þetta hefði verið með vilja gert hjá ríkisstjórnarflokkunum að veikja Ríkisútvarpið svo sem raun ber vitni með því bæði að heimila ekki hækkanir á afnotagjöldum né heldur að vilja bæta úr með sjálfstæðum fjárframlögum til stofnunarinnar í gegnum fjárlög.

Nú er það svo að margt af því sem deilt hefur verið á hér í þessum sal varðandi þetta mál hefur lotið að réttindum starfsmanna. Eftir síðustu meðferð málsins í nefnd er ljóst að engu á að breyta varðandi réttindi starfsmanna og ljóst er að þau eru fótum troðin og brotin og enginn vilji hjá þeim sem að þessu máli standa til þess að gera nokkra bragarbót þar á, enda sýna breytingartillögurnar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur talað fyrir fyrir hönd meiri hluta menntamálanefndar svo ekki verður um villst að þar á ekki að taka á þeim kröfum sem starfsmenn stofnunarinnar hafa sett fram að einu eða neinu leyti.

Við skulum rifja upp sjónarmið starfsmanna stofnunarinnar sem sendu ályktun frá sér þann 4. apríl sl. varðandi þetta nýja félag, Ríkisútvarpið hf., og sendu m.a. okkur þingmönnum ályktunina. Mig langar til að lesa yfirlýsingu þeirra upp en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Starfsmenn Ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Bent hefur verið á opin ákvæði í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára. Þær virðast nú hafa endað í óútfylltri ávísun til framtíðar. Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra. Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi. Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf.“

Loks lýsa starfsmenn vanþóknun á því ef áunnin réttindi starfsmanna verða skert. Svo virðist sem sum þeirra verði numin úr gildi bótalaust.

„Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin sem væru eign starfsmanna mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágu laununum. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er að áframhaldandi óvissuskeið haldi áfram næstu árin af því að ný lög hafi ekki verið nógu vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Frú forseti. Við þessu ákalli hefur ekki verið orðið. Þeir starfsmenn sem samþykkja yfirlýsingu af þessu tagi, starfsmenn sem telja sig vera í vinnu hjá þjóðinni við eina merkustu menningarstofnun Íslands eiga að mínu mati rétt á því að fá áheyrn, fá svar við ákalli því sem þeir hafa sett fram mjög skýrt og skorinort. Vilji þeirra er sniðgenginn af þeim sem hér ráða ríkjum, hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem eru á þessari ótrúlegu vegferð algjörlega án þess að rökstyðja það, og það er kannski það versta af öllu. Umræðan hefur ekki verið með þeim hætti að þjóðin eða starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi fengið rökstuðning frá stjórnarliðum í þessu máli.

Nú er rétt að spurt sé og þess krafist að svör liggi fyrir í 3. umr. við því hver tilgangurinn sé með því að fara í þessa vegferð að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og hvers vegna ekki sé hlustað á ákall starfsmanna sem kvarta undan réttindabrotum og kvarta ekki bara heldur eru með sér til fulltingis BHM og BSRB, stéttarfélög sín, sem gefa frá sér yfirlýsingar og minnisblöð sem eru fáheyrð þar sem það kemur fram að þegar ríkisstofnun er breytt í hlutafélag hætti starfsmenn hennar að vera starfsmenn ríkisins, þeir verði þess í stað starfsmenn viðkomandi hlutafélags þrátt fyrir að ríkið beri áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. BSRB og BHM hafa sett niður nokkur atriði varðandi þau réttindi starfsmanna sem falla niður og telja þar upp úr lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins atriði eins og t.d. andmælarétt, áminningarskyldu, skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn, auglýsingaskyldu á lausum störfum, aðgang almennings að upplýsingum um nöfn, starfsheiti umsækjenda og fleira því um líkt, uppsagnarfrest, þagnarskyldu, skyldu til að hlíta breytingum á störfum og verksviði, óbreytt launakjör og réttindi ef breytingar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns í jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er. Svo tala þeir um biðlaunarétt þeirra sem ráðnir eru fyrir 1. júlí 1996.

Hér er um að ræða alvarlegar ásakanir sem hafa ekki fengið málefnalega umræðu og við stjórnarandstæðingar sem höfum verið að reyna að andæfa þessum framkvæmdum og hugmyndum höfum ekki fengið stjórnarliða hingað upp í þessa málefnalegu umræðu við okkur og engin svör koma og engar skýringar við því hvers vegna málið er sótt svo fast, hvers vegna þessi leiðangur er farinn. Eða hefur Framsóknarflokkurinn gefið nokkra málefnalega skýringu á þeim viðsnúningi sem hefur orðið í sjónarmiðum hans í þessu máli? Árum saman stærði Framsóknarflokkurinn sig af því að standa í lappirnar í málefnum Ríkisútvarpsins gegn þrýstingi sjálfstæðismanna við að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Hvað breyttist svo, megum við fá að vita það? Má þjóðin fá að heyra það frá framsóknarmönnum hvað breyttist? Við viljum líka fá að heyra hvort eitthvað sé til í þeim ásökunum sem núna eru uppi varðandi Nýsköpunarmiðstöðina sem deilurnar eru um og virðast vera hluti af ástæðunum fyrir þessu sumarþingi. Það eru þessar tvær meginástæður, þ.e. að koma Nýsköpunarmiðstöð iðnaðarráðherra hér í gegn og svo frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. Eru þetta hrossakaup? Menn hafa verið sakaðir um að svo sé, sakaðir um að hafa hér óhreint mjöl í pokahorninu hvað þetta varðar, en hafa menn svarað því hér á einhvern málefnalegan hátt? Ónei. Hér kemur enginn framsóknarmaður til að skýra það fyrir þingheimi eða þjóðinni hvers vegna hlutirnir séu með þessum hætti en ekki einhverjum öðrum, hvers vegna Framsóknarflokkurinn hafi yfirgefið stefnu sína, svikið fyrri ályktanir, breytt hugmyndum sínum eða hugmyndafræði, og hvað hafi orðið til þess.

Það er ljóst að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa velt þessu máli mikið fyrir sér og við í menntamálanefndinni höfum fengið þá oftar en einu sinni til okkar og ég sé ekki betur þegar gögn þessa máls eru lesin en að þar standi enn þá út af ekki bara þau atriði sem ég taldi áðan varðandi lög og skyldur starfsmanna ríkisins, sem koma til með að falla niður við þessa breytingu, heldur falla líka niður eða verða líka breytingar varðandi starfsmenn sem lúta að því að þeir munu ekki lengur heyra undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er því ljóst að stéttarfélögin sem hingað til hafa samið fyrir þá starfsmenn munu að öllum líkindum ekki koma að samningum fyrir þá starfsmenn sem koma til með að starfa hjá hlutafélaginu. Lögin nr. 19/1979, um réttindi verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, munu kannski gilda nema um annað sé samið og það verða örugglega ólíkar reglur sem koma til með að gilda um starfsmenn varðandi verkföll starfsmanna og allt annað þar upp á teningnum en hefur verið hingað til.

Nú er það svo að núgildandi kjarasamningur mun gilda þar til nýr kjarasamningur verður gerður eða kjarasamningi verður sagt upp, hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Þá eiga réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi, sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað, að færast yfir til nýja atvinnurekandans. Sú staða kemur hins vegar vafalaust upp fljótlega eftir að rekstrarformsbreytingin verður orðin að veruleika að nýr ráðningarsamningur verði gerður við starfsmenn. Þá er eðlilegt að menn spyrji sig hvernig til takist með að semja um sambærileg réttindi þegar nýr kjarasamningur verður gerður. Það gefur auga leið í mínum huga að stjórnendur Ríkisútvarpsins munu koma til með að ganga á lagið hvað þetta varðar og ég óttast það auðvitað mest af öllu og tek undir þann ótta starfsmanna og það sem starfsmenn hafa látið í ljósi varðandi þetta, að það muni verða tekin frá þeim réttindi sem þeir hafa notið hingað til.

Varðandi síðan biðlaunaréttinn sem einnig hefur verið talað um og ákveðin vafamál eru uppi um, þá mun hann flytjast til hlutafélagsins þann 31. desember 2008 og þeir sem eiga biðlaunarétt og missa starf sitt vegna niðurlagningar stöðu eftir þann tíma munu ekki njóta þeirra réttinda sem biðlaunarétturinn ætti í sjálfu sér að veita þeim. Ég tek undir það sem BHM og BSRB hafa látið okkur í té varðandi þetta að með þessu sé verið að skerða réttindi þeirrar starfsmanna Ríkisútvarpsins sem njóti biðlaunaréttar sem þeir hafi áunnið sér í starfi, og við verðum að vera minnug þess að biðlaunaréttur er í sjálfu sér eignarréttindi og það er andstætt eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar að taka réttindi, sem eru í sjálfu sér eign, af fólki með þessum hætti.

Réttindi starfsmanna sem heyra undir bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur sem hafna starfi hjá Ríkisútvarpinu hf. eru heldur ekki tryggð í þessu frumvarpi þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn og ekki er um að ræða sambærilegt starf hjá Ríkisútvarpinu hf. Það er mikilvægt að hafa í huga að ráðningarvernd verður engin hjá Ríkisútvarpinu hf. og hægt verður að segja starfsmönnum upp án andmæla, án rökstuðnings eða áminningar, þannig að þrátt fyrir að biðlaunaréttur fylgi til 31. desember 2008 er alltaf hægt að segja starfsmönnum upp þó ekki sé verið að leggja starfið niður. Þetta segja BHM og BSRB af fenginni reynslu í gegnum tíðina með fyrri breytingum, rekstrarformsbreytingum og einkavæðingu núverandi ríkisstjórnar. Þar eru t.d. bankarnir nefndir til sögunnar, einnig Pósturinn og Síminn. Það er auðvitað alveg ljóst að hér er verið að fara inn á sömu braut sem menn hafa verið að þvælast í hingað til og jafnvel verið að fá á sig dóma sem allir hafa fallið á þann hátt sem BSRB og BHM hafa sagt fyrir um að þeir mundu falla. Ég held því að ríkisstjórnin viti alveg út í hvað hún er að fara hér og þó svo að þeir geri þetta algjörlega með galopin augu í fullvissu um hvað bíður þeirra þá taka menn hér engu að síður þessa áhættu, taka þetta skref vitandi það að bótakröfur eiga eftir að þurfa að falla á þá í einhverju magni og menn ætla sér þá bara að borga það sem það kostar. Svo mikið liggur þeim á, svo mikið er þeim í mun að koma þessum áformum sínum í framkvæmd, koma þeim alla leið að það skal kosta það sem það kostar. Svo segja menn nánast við starfsmennina: Já, farið þið þá bara í mál við okkur. Það er stíll hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, hann hefur tekið hann upp frá hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, að það sé bara hægt að brjóta á rétti fólks til hægri og vinstri, menn geti þá bara farið í mál og sótt einhverja málamyndaskaðabætur. Við borgum bara það sem það kostar, komið þið bara í okkur. Þetta er hluti af tuddaskapnum sem viðgengst hjá þessari ríkisstjórn sem ég vil meina að Sjálfstæðisflokkurinn hafi innleitt og þingmenn Framsóknarflokksins hafa tekið upp og mala nú og kurra í hálsakoti sjálfstæðismanna og vilja fara sömu leið.

Frú forseti. Varðandi lífeyrisrétt starfsmanna B-deildar samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir — þau hjá BHM og BSRB segja okkur það — að við rekstrarformsbreytinguna verði skerðing á réttindum starfsmanns sem greiðir í B-deild LSR. Iðgjöld hans miðast við þau laun sem hann hafði þegar staðan var lögð niður og breytast iðgjaldagreiðslurnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Segja má með öðrum orðum að eins konar frysting verði á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu hf. því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs.

Að lokum nefna þau hjá BSRB og BHM lífeyrisrétt starfsmanna í A-deild samkvæmt frumvarpinu en í því er ekki einu orði minnst á réttindi starfsmanna sem greiða í A-deild LSR. Aðeins er fjallað um lífeyrisgreiðslur samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997, en sú grein á eingöngu við um B-deildina. Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild lífeyrissjóðsins til áframhaldandi aðildar að LSR er háð nokkrum skilyrðum. Sé ekki gengið tryggilega frá því í lagafrumvarpinu yrði aðildin háð samþykki Ríkisútvarpsins hf. og hlutafélagið taki á sig þær skuldbindingar sem henni fylgja. Hvað vitum við um það hvernig stjórnendur Ríkisútvarpsins hf. koma til með að snúa sér í slíkum málum? Koma þeir til með að samþykkja A-deildar aðild viðkomandi starfsmanna eða ekki? Hvaða rök koma þeir þá til með að bera fyrir sig ef því verður hafnað? Allt þetta er óljóst og með endemum að menn skuli ákveða að skilja við þetta mál á þeim nótum sem raun ber vitni. Ég hef haldið því fram að hér sé um ákveðna uppgjöf að ræða gagnvart því kerfi sem við höfum búið til og búið við hingað til. Menn halda því fram á kreddufullan hátt að í ríkiskerfinu sé enginn sveigjanleiki. Stjórnendur sem stjórna í nútímafyrirtækjum þurfa að hafa sveigjanleika, fyrst og fremst auðvitað til að reka starfsmenn og ráða. Ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra vilji hafa sama sveigjanleikann varðandi það að ráða og reka útvarpsstjóra. Svo fær útvarpsstjórinn sveigjanleika til að ráða og reka undirmenn sína. Það snýst um þetta.

Menn hafa þverskallast við að opna augu sín fyrir möguleikunum sem eru fólgnir í því kerfi sem við búum við. Við erum tilbúin öll sem eitt, bæði þeir sem starfa hjá ríkinu, þeir sem hafa starfað hjá ríkinu og þeir sem bera ríkisreksturinn fyrir brjósti, að fjalla um aukinn sveigjanleika innan kerfisins og með hvaða hætti sé hægt að auka hann. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp í þeim efnum. En ekki er verið að tala um slíkt hér. Hér nenna menn ekki að tala eins og kom fram þegar nýi meiri hlutinn í Reykjavík var myndaður, þá ákváðu menn að tala ekki af því að menn væru búnir að tala nóg heldur ákváðu menn að fara strax að framkvæma, strax. Það mátti ekki bíða einn dag, ekki hálfan, ekki korter. Það lá svo mikið á að hætta að tala. Þessi stíll er viðhafður á Alþingi af stjórnarmeirihlutanum sem nú ríkir í Ráðhúsinu. Hér vilja menn ekki tala. Hér skattyrðast menn ómálefnalega, svara engum spurningum stjórnarandstöðunnar, kinoka sér við málefnalegri umræðu, setja undir sig hausinn, bíta á jaxlinn og tuddast með hvert málið á fætur öðru í gegnum Alþingi. Þessi stjórnunarstíll er til skammar og hann ber vitni vanhæfum stjórnvöldum.

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af Ríkisútvarpinu. Ég hef haft þær lengi og þær fara vaxandi. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin sé að gera sér þær grillur að hún sé og verði hér eilíf. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur líta svo á að það sé náttúrulögmál að þeir sitji í valdastólunum. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin sér fyrir sér með þessu máli að hún geti haft ákveðin áhrif á Ríkisútvarpið og mögulega umfjöllun í fréttum og fréttatengdum þáttum, að hún geti mögulega stjórnað pólitískri umræðu í samfélaginu í gegnum þann miðil. Þetta eru að sjálfsögðu getgátur og kenningar sem ég er að tala um og tala fyrir. Ég hef sjálf áhyggjur af því að ríkisstjórnin hafi verið að skipta sér um of af málefnalegri umfjöllun í Ríkisútvarpinu. Við erum öll minnug umræðunnar um Spegilinn sem hæstv. dómsmálaráðherra, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, sá ástæðu til að reka hornin í á heimasíðu sinni á sínum tíma og varði síðan í viðtölum í fjölmiðlum víða. Þessi sami hæstv. ráðherra fékk til liðs við sig samflokksmann sinn og fyrrum útvarpsstjóra sem sömuleiðis lét í ljósi áhyggjur af vinstri slagsíðu á útvarpsþættinum Speglinum og um þetta spunnust mjög miklar umræður. Ég var mjög hugsi yfir þeim umræðum öllum. Og það kemur upp í hugann þegar maður fer að lesa þau sjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu, þegar maður fer að lesa á hvern hátt stjórn Ríkisútvarpsins verði fyrir komið samkvæmt frumvarpinu, að ég sé ekki annað en að verið sé að tryggja pólitísk ítök valdhafanna, pólitísk ítök ríkisstjórnarinnar. En það er meiri hluti Alþingis sem gert er ráð fyrir að samþykki og skipi þessa stjórn sem fyrirhugað er að fari fyrir þessu hlutafélagi. Síðan er það í verkahring menntamálaráðherra að ráða og reka útvarpsstjórann.

Ég spyr: Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að beita þessum völdum sínum? Ég stend hér og mér líður þannig að hún kunni ekki með þessi völd sín að fara. Ég vísa til reynslunnar í þeim efnum. Ég spyr sjálfa mig núna á þessum tímapunkti hvort ríkisstjórnin muni halda áfram pólitískum afskiptum sínum, beinum og óbeinum, þegar og ef frumvarpið verður orðið að lögum, kannski í ljósi þess sem átti sér stað í Ríkisútvarpinu, ríkissjónvarpinu á laugardaginn var, kjördag 27. maí, þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað að fréttir ríkissjónvarpsins voru að því er virðist ritskoðaðar og ákveðið var að fresta frásögn eða frétt sem unnin hafði verið um hálendisgönguna sem farin var frá Hlemmi og hingað niður á Austurvöll þar sem haldinn var útifundur til að mótmæla stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar og til að leiða fólki það fyrir sjónir að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar væri á kjörseðlinum í sveitarstjórnarkosningum. Þessi ganga var gríðarlega öflug. Þegar ég var að fara af stað frá Hlemmtorgi leið mér eins og ég væri stödd í hópi þúsunda manna sem væru haldin sömu hugsjónum og ég um að bjarga hálendinu úr klóm þessarar hræðilegu ríkisstjórnar og þúsundum saman flykktist fólk niður Laugaveginn hingað á Austurvöll. Undir styttu Jóns Sigurðssonar fyrir framan Alþingishúsið var haldinn öflugur útifundur með kröfunni um að núverandi ríkisstjórn sleppti klóm sínum af hálendinu og sömuleiðis að sveitarstjórnir áttuðu sig á því að það væri stór og vaxandi hópur í samfélaginu sem vildi fara aðrar leiðir í atvinnuuppbyggingu en hengja sig á klafa álvæðingar ríkisstjórnarinnar og bjóða hingað heim erlendum auðhringum til að gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi. Frá þessari göngu var ekki sagt í fréttatíma ríkissjónvarpsins að kvöldi kjördags. Heimildir mínar herma að það hafi verið meðvituð ákvörðun að segja ekki frá göngunni fyrr en daginn eftir. Eflaust hafa menn borið það fyrir sig að kjörstaðir væru enn opnir og þar af leiðandi óttast að reiði stjórnvalda gæti komið til ef sagt yrði frá göngunni áður en kjörstöðum yrði lokað. Ég verð að segja að ríkisstjórnin og þessi pólitísku ítök sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að planta inn í stofnunina leynt og ljóst eru hættuleg og koma ekki til með að breytast með þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum okkur hins vegar vera með hugmyndir og tillögur í frumvarpsformi sem kæmu til með að breyta því ástandi. Þær hugmyndir og þær tillögur ganga út á stjórn sem yrði fjölskipuð, fjölskipað stjórnvald sem kæmi víða að og gæti tryggt fjölbreytni, fjölræði og fagmennsku í umfjöllun og stjórnun stofnunarinnar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum í tvígang lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Ríkisútvarpið og við erum þess fýsandi að þeim lögum verði breytt. Við teljum ekki ástæðu til að henda þeim, sannarlega ekki. Við tölum fyrir því að gerðar séu breytingar á núgildandi lögum sem tryggi öfluga innlenda dagskrárgerð og eins og menn vita sem sitja í þessum sal höfum við komið oftar en einu sinni, nánast á hverju ári í mörg ár höfum við komið með tillögu við fjárlagaumræðu þar sem við viljum að settir séu beinir peningar af fjárlögum ríkisins í það að styrkja innlenda dagskrárgerð svo Ríkisútvarpið geti staðið undir nafni sem ein merkasta menningarstofnun þjóðarinnar, sem ein af þeim stofnunum sem framleiða menningarefni, framleiða menningararf framtíðarinnar, en við því hefur auðvitað verið daufheyrst og þær tillögur okkar ekki fengið neitt brautargengi eða hljómgrunn.

Við höfum líka í hugmyndum okkar gengið út frá því að útvarpsráð í núverandi mynd verði lagt niður en í staðinn komi annars konar stjórnarform. Sett verði á laggirnar það sem við viljum kalla dagskrárráð og sömuleiðis viljum við að framkvæmdastjórninni verði breytt, framkvæmdastjórn útvarpsins yrði þá skipuð útvarpsstjóra og öllum framkvæmdastjórum deilda Ríkisútvarpsins. Við teljum það afar mikilvægt að framkvæmdastjórar deildanna komi að framkvæmdastjórn útvarpsins og sömuleiðis viljum við að jafnmargir fulltrúar, sem verði kjörnir af starfsmönnum, komi inn í framkvæmdastjórnina, jafnmargir og framkvæmdastjórar deildanna væru. Þar erum við að tala um að einn starfsmaður komi þá frá hverri deild og síðan gerum við ráð fyrir að einn fulltrúi dagskrárráðs sitji í framkvæmdastjórninni, hann hafi þar málfrelsi og tillögurétt og útvarpsstjóri verði svo formaður framkvæmdastjórnarinnar og framkvæmdastjóri fjármáladeildar verði varamaður útvarpsstjóra í framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórnin á samkvæmt hugmyndum okkar að bera ábyrgð á almennum rekstri, á mannaráðningum, á samræmingarstarfi deilda og annarri stjórn Ríkisútvarpsins og teljum við að með því sé hægt að tryggja ákveðið hlutleysi og fagmennsku og eins og ég sagði áðan fjölræði í stjórn Ríkisútvarpsins. Við viljum að ráðherra skipi samkvæmt tillögu dagskrárráðs útvarpsstjóra til fimm ára í senn þannig að ekki verði um beina ráðningu menntamálaráðherra á útvarpsstjóranum að ræða og svo viljum við að menntamálaráðherra skipi dagskrárráð Ríkisútvarpsins eftir hverjar alþingiskosningar þar sem í sitji einn fulltrúi tilnefndur af hverjum þingflokki, tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Bandalagi íslenskra listamanna. Sömuleiðis sitji útvarpsstjóri í dagskrárráðinu, framkvæmdastjórar hljóðvarps og sjónvarps og einn fulltrúi sem verði tilnefndur af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þetta er í stórum dráttum hugmynd okkar að stjórn Ríkisútvarpsins sem tryggja ætti hlutleysi, fagmennsku, fjölræði og fjölbreytni í stjórnun og þá um leið í dagskrárgerðinni.

Varðandi dagskrárgerðina vitum við öll og ég hef vikið að því fyrr í máli mínu að dagskrárdeildirnar hafi verið sveltar hingað til og það er sárgrætilegt að horfa upp á það á hvern hátt ríkisstjórnin hefur farið að ráði sínum í þessum efnum, á hvern hátt Ríkisútvarpið hefur verið svelt út á brautir útboða sem hafa í sjálfu sér ekki skilað nema lágmarkshagræðingu, lítilli sem engri vil ég leyfa mér að fullyrða, og enn þá finnst mér að setja mætti stórt spurningarmerki við þær ákvarðanir sem á sínum tíma voru teknar að leggja niður alla dagskrárgerð innan stofnunarinnar sjálfrar.

Þá langar mig að víkja, frú forseti, nokkrum orðum að umræðu þeirri sem kom í kjölfar 2. umr. um þetta mál á Alþingi. Varaþingmaður minn, hv. þm. Atli Gíslason, kom á mjög málefnalegan hátt inn á höfundarréttarmál og vakti athygli á því að ekkert hefði verið ákveðið varðandi safnefnið og þá dýrmætu eign Ríkisútvarpsins og þjóðarinnar sem fólgin er í safninu sem hefur að geyma upptökur Ríkisútvarpsins frá 1930. Atli talaði um það af miklum sannfæringarkrafti að þarna væri í raun geymd saga þjóðarinnar í máli og myndum og um væri að ræða þjóðareign rétt eins og Þingvelli, Gullfoss, handritin á Árnastofnun, þjóðminjarnar á Þjóðminjasafninu og málverkin okkar á Listasafni Íslands. Ræður Atla um þessi mál vöktu athygli enda áttuðu menn sig á því að í safni Ríkisútvarpsins væri að finna upplestur þjóðskálda, svo sem nóbelsskáldsins, gagnmerk útvarpsleikrit, sögulega fréttaþætti af miklum tíðindum 20. aldar og einnig ákaflega dýrmæta menningarþætti, útvarpserindi, fræðsluerindi, fróðleik og vísindi, plötusafn og upptökur sem ættu engan sinn líka hér á landi.

Þegar nefndin tók svo málið undir sinn væng aftur milli 2. og 3. umr. fékk hún til sín forstöðumann þessa merka safns Ríkisútvarpsins, Elínu S. Kristinsdóttur safnstjóra, og í máli hennar kom fram staðfesting á því sem Atli Gíslason hafði sagt hér. Á endanum ákvað meiri hlutinn að mæta þessari gagnrýni Atla og út frá þeim upplýsingum sem nefndin fékk hjá safnstjóra Ríkisútvarpsins var ákveðið að setja fram þessa breytingartillögu á 4. gr. sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni. Það verður þá svo að Ríkisútvarpinu hf. mun verða óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.

Það er til marks um það, eins og ég sagði áðan, hversu illa þetta er allt saman unnið að þetta skyldi fara fram hjá frumvarpshöfundunum, menntamálaráðherra, formanni menntamálanefndar og reyndar nefndinni allri á fyrri stigum. Í öllu falli einbeittum við okkur ekki að því að horfa á þetta með þessum hætti fyrr en eftir 2. umr. Eins og ég sagði áðan er safnið uppfullt af upptökum, menningararfi frá árinu 1930 þegar útsendingar Ríkisútvarpsins hófust. Þó að ekki hafi allt efni frá upphafsárum Ríkisútvarpsins og fram til þessa dags verið varðveitt eru þessar upptökur miklar gersemar. Þar eru að minnsta kosti þúsundir eða tugþúsundir af upptökum á segul- og myndböndum. Þetta á auðvitað bæði við um hljóðvarp og sjónvarp og svo varðveitir Ríkisútvarpið að auki mjög mikið safn, sennilega stærsta safn á landinu af útgefnum hljómplötum og tónleikaupptökur líka.

Safnstjórinn, Elín S. Kristinsdóttir, lagði áherslu á það bæði í fjölmiðlum og við nefndina að ekki hefði verið nægilega vel búið að safninu fram að þessum degi. Það er enn ein staðfestingin á því sem ég hef haldið fram að Ríkisútvarpið hafi mátt þola frá hendi stjórnvalda niðurlægingu, ekki hafa verið settir fjármunir í að halda þessum gersemum við og varðveita þær eða gera þáttagerðarfólki Ríkisútvarpsins kleift að nýta þær í framleiðslu efnis. Fjármunir til dagskrárgerðar hafa hingað til verið af svo skornum skammti og einnig fjármunir til safnsins. Nú er búið að afhjúpa það. Ekki hafa verið til fjármunir til þess að skrá þetta safn, fjármunir hafa ekki verið settir í að færa skrárnar á tölvutækt form nema að sáralitlu leyti og fjármunir hafa heldur ekki verið settir í að færa eldri upptökur yfir á stafrænt form til þess að auka möguleika á að varðveita þær.

Það er dagljóst að þetta safn eins og önnur þarf fjármuni til að reka sig og þeir hafa verið skornir við nögl af þeim sem fara með völdin í hinum opinberu sjóðum okkar og hagræðingarkrafan, ef kalla má það því orði, sem hvílt hefur á Ríkisútvarpinu, þ.e. niðurskurðarhnífur stjórnvalda, hefur orðið þess valdandi að ekki hefur verið hægt að sinna þessum gersemum eins og fagmenn sem þeirra gæta hefðu viljað.

Elín S. Kristinsdóttir sagði í blaðaviðtali í Morgunblaðinu þann 14. maí sl., með leyfi forseta:

„Því einn daginn þegar menn ætla að fara að sækja þessi gögn þá eru þau ekki lengur aðgengileg, ekki síst vegna breyttrar tækni.“

Það er sem sagt ljóst að safnið hefur verið rekið undir fátæktarmörkum og það hefur að sjálfsögðu verið með vilja og vitund stjórnvalda eins og allt annað sem hefur verið að veikjast hjá Ríkisútvarpinu vegna fjárskorts. Þótt Ríkisútvarpið varðveiti þetta efni og hafi heimild til þess samkvæmt lögum að nýta það eru hér líka höfundarréttarleg álitamál. Knútur Bruun kom fyrir menntamálanefnd og fjallaði um þau sérstaklega og hefur látið hafa eftir sér að höfundarrétturinn sem hvíli á efninu sé mismunandi og margvíslegur, í sumum tilvikum á Ríkisútvarpið réttinn en í öðrum tilvikum þarf að semja við höfunda eða þá sem hafa rétt til flutnings. Það hefur svo sem gengið með ágætum þegar fjármunir hafa verið til staðar fyrir dagskrárgerðina, en það hefur ekki verið sem skyldi nú á seinni árum og það er mjög miður.

Ég vil einnig, frú forseti, nefna þau alvarlegu tíðindi að ekki skuli hafa náðst neinn árangur varðandi yfirlýsingar frá meiri hluta menntamálanefndar varðandi sjálfstæði fréttastofa Ríkisútvarpsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að rekin sé fréttastofa við Ríkisútvarpið og það heyri undir almannaþjónustuhlutverkið. En ekki er kveðið á um að fréttastofurnar eigi að vera tvær eins og nú er og hafa starfsmenn látið í ljósi ákveðnar áhyggjur í þeim efnum og telja að hér geti enn ein veikingin verið á ferðinni. Ef fréttastofurnar verði sameinaðar fækki öflugum fréttastofum á landinu um eina og það sé ákveðið áhyggjuefni. Ég tek undir það með starfsmönnum fréttastofanna að það sé áhyggjuefni að þá falli niður ákveðinn fjölbreytileiki. Þá erum við kannski komin að því hvers vegna það er svo mikilvægt að samfélag eins og okkar, sem er ekki fjölmennara en raun ber vitni, hafi á að skipa sterkum fréttastofum, ekki bara einni og ekki bara tveimur heldur helst af öllu fleiri. Það hlýtur að vera í þágu lýðræðislegrar umræðu í samfélagi okkar að fréttastofur séu gerðar sjálfstæðar og lög þurfa að kveða á um að svo verði. Það er það eina sem tryggir sjálfstæði. Ekki er þó víst að það tryggi sjálfstæði en það er í öllu falli ákveðin yfirlýsing sem starfsmenn á fréttastofunum geta þá notað sér sem öryggistæki ef þess er getið í lögum með hvaða hætti fréttastofurnar eru sjálfstæðar. Nú er það svo að nýja fjölmiðlafrumvarpið okkar gerir ráð fyrir því að um þetta verði leidd í lög ákveðin atriði, ákveðnar vinnureglur sem skiptir verulegu máli að gildi um fréttastofur Ríkisútvarpsins líka, fréttastofur Ríkisútvarps og sjónvarps. Í því sambandi legg ég áherslu á að fréttastofurnar við þennan ríkisfjölmiðil, sem þarf að vera öflugur og þarf að hafa bolmagn, þurfa að mínu mati að vera tvær.

Ég nefndi fjölmiðlafrumvarp það sem nú er komið fram en var ekki komið fram þegar þessu máli var dreift. Það er alkunna að við sem störfuðum í fjölmiðlanefndinni svokölluðu óskuðum alltaf eftir því að þau mál yrðu rædd saman. Þegar ég sá að þetta frumvarp hafði ekki verið afgreitt frá Alþingi á þeim tíma sem fjölmiðlafrumvarpið var að líta dagsins ljós, eftir að hafa farið í gegnum hendurnar á lögspekingum sem höfðu samið það á grundvelli tillagna fjölmiðlanefndarinnar, var ég svo mikið barn að halda að heimilað yrði að taka fjölmiðlafrumvarpið til umfjöllunar og Ríkisútvarpsfrumvarpið yrði rætt á sama tíma, að bæði málin yrðu til umfjöllunar í nefndinni á sama tíma. Það gæti auðveldað okkur ýmislegt, það gæti auðveldað fjölmiðlum að fjalla um málin, það gæti gert þjóðinni betur kleift að skilja fjölmiðlaumhverfið hér á landi og á hvern hátt menn sæju fyrir sér að best væri að það þróaðist. En það var sem sé ekki heimilað og svo hefur það komið fram í þessari umræðu að málin hafi aldrei verið lesin saman í menntamálanefnd jafnvel þó að beiðni um það hafi komið fram.

Nú er það svo að hér skarast málin. Ákveðnir þættir í fjölmiðlafrumvarpinu koma til með að eiga við um Ríkisútvarpsfrumvarpið á sama hátt og þeir eiga við um aðra fjölmiðla, einkarekna fjölmiðla í landinu. Mér hefði fundist einfalt og sjálfsagt að menntamálanefnd fengi að lesa þessi frumvörp saman úr því að svo fór að fjölmiðlafrumvarpið kom fram áður en þetta frumvarp hafði verið endanlega afgreitt. Enn er komið að spurningu sem ekki hefur fengist viðhlítandi svar við: Hvers vegna hafnar meiri hlutinn því að þessi tvö frumvörp séu lesin saman í menntamálanefnd? Hvað gengur mönnum til? Einhverjar ástæður hljóta að vera fyrir því. Ef þær eru ekki málefnalegar reyna menn að fela svarið en ef þær eru málefnalegar hlýtur svarið að mega liggja á borðinu, en svo er ekki. Svarið við því hvers vegna ekki mátti lesa frumvörpin saman hefur ekki litið dagsins ljós, það hefur ekki verið borið fram. Mér þykir það mjög miður að menn skuli ekki eftir alla þá vinnu sem farið hefur í fjölmiðlafrumvarpið hafa viljað heimila menntamálanefnd að lesa frumvörpin saman og spyrja þá þeirra málefnalegu spurninga sem upp mundu rísa eftir slíkan lestur. En menn fara einlægt undan í flæmingi og forðast hina málefnalegu umræðu eins og ég hef vikið að áður.

Almannaþjónustuhlutverkið hefur verið mikið til umfjöllunar í þessari umræðu og fyrst og fremst í 2. umr. Ég tel fulla ástæðu til, eins og hv. þm. Mörður Árnason vék að hér áðan, að vekja athygli á því að það mál er ekki útrætt. Skilgreining sú sem kemur fram í 3. gr. er ekki fullnægjandi, hún hefur verið mikið gagnrýnd. Sú gagnrýni hefur að mörgu leyti verið mjög málefnaleg og fjölda spurninga sem varpað hefur verið fram um 3. gr., og þá töluliði þar sem útlista á hvern hátt menn sjá fyrir sér útvarp í almannaþágu, hefur ekki enn verið svarað. Ég hefði satt að segja óskað eftir því að sjá í nefndaráliti meiri hlutans miklu betur og efnislegar um það fjallað á hvern hátt menn sjá fyrir sér þetta almannaþjónustuhlutverk. Hv. þm. Mörður Árnason upplýsir síðan að fjölmiðlaskrifstofa Evrópuráðsins í Strassborg hefði haft ráðrúm og tíma til þess að gefa okkur einhvers konar umsögn um töluliðina í 3. gr. ef menn hefðu orðið við þeirri beiðni minni hlutans í menntamálanefnd að senda skilgreininguna þangað. Þá hefði verið hægt að fara yfir hana og gefa okkur áður en málið væri afgreitt frá þingheimi einhvers konar viðbrögð við því hvort almannaþjónustuhlutverkið, eins og það er tíundað í 3. gr., sé fullnægjandi eða hvort það stangist að einhverju leyti á við þær hugmyndir sem menn hafa verið að vinna með í Evrópu.

Í þessari umræðu allri höfum við auðvitað verið að miða okkur við Evrópuráðið og tilskipanir Evrópusambandsins í þessum efnum sem eru nokkuð samhljóða, held ég megi segja. Þegar svona stór mál eru á ferðinni og verið er að setja löggjöf sem maður skyldi ætla að menn vildu að stæði til framtíðar er eðlilegt að menn geri það sem hægt er til að fá sjónarmið frá reyndu fólki sem hefur djúpa þekkingu á málinu frekar en að menn reyni að koma sér hjá því að fá sérfræðiálit frá þeim sem gerst til þekkja.

Það sem ég sagði áðan um fréttastofur þær sem koma til með að verða reknar á þessum nýja miðli, þ.e. í þessu nýja félagi, og um nauðsyn þess að þær fái að vera sjálfstæðar og finni sig ekki undir valdi stjórnvalda á nokkurn hátt, kemur upp í huga minn þegar ég horfi á úrklippu úr Morgunblaðinu frá 7. desember 2005 um Ríkisútvarpið hf. Þá skrifaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins leiðara um þetta nýja frumvarp. Sumt það sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins sagði lýtur að áhyggjum mínum af ítökum stjórnvalda og valdi útvarpsstjórans sem er ráðinn af stjórnvöldum, þ.e. menntamálaráðherra. Mig langar til að vitna í klausu úr þessum leiðara frá 7. desember 2005. Þar segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsstjóri mun því hafa mikið vald. Staða hans verður svipuð og staða æðsta manns á sumum dagblöðum í öðrum löndum, þar sem sami einstaklingur gegnir starfi framkvæmdastjóra og ritstjóra.“ — Svo segir: — „Það verður að fara vel með slíkt vald.“

Þetta eru orð að sönnu, frú forseti. Það verður að fara vel með slíkt vald og maður sem gegnir slíku starfi má ekki liggja undir neinu ámæli um einhvers konar tengsl við hæstráðendur hér, þ.e. menntamálaráðherra, og þess vegna kemst ég aldrei að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að það sé hættulegt að menntamálaráðherra ráði útvarpsstjórann. Niðurstaða mín er alltaf sú að til verði að koma fagskipað ráð sem hefur fagleg sjónarmið að leiðarljósi sem sjái um þessa ráðningu. Í því samhengi hef ég horft til landa eins og Frakklands sem nýverið réði sér sjónvarpsstjóra að undangengnu miklu og flóknu ferli þar sem menn voru sér fullkomlega meðvitaðir um það hversu mikilvægt væri að halda þar vel á málum og að ráðningin væri hafin yfir alla gagnrýni og yrði eins málefnaleg og hugsast gæti. Ég held ég hafi einhvern tíma lýst því úr ræðustóli áður, en get hlaupið yfir það í örfáum orðum, að ráðningarferlið í Frakklandi var þannig að fimm af um það bil 30 umsækjendum voru valdir til að fara inn í ferlið og það tók langan tíma. Ráð var sérstaklega skipað til þessa eina verkefnis að ráða þennan sjónvarpsstjóra og meðal þeirra sem skipuðu í það ráð var forseti Frakklands. Til að sýna hversu mikilvægt væri að ráðið væri fjölskipað og að þeir sem bæru hag þjóðarinnar mest fyrir brjósti ættu aðild að því að skipa í þetta ráð þá var forsetinn látinn skipa einn af þessum fimm. Ég man að vísu ekki hve margir voru í þessu ráði en alla vega var það að hluta til skipað af forseta Frakklands. Allir þeir fimm sem valdir höfðu verið inn í ráðningarferlið voru kallaðir fyrir ráðið. Þeir fengu tíma til að undirbúa skýrslu eða einhvers konar pappír um það hvernig þeir sæju fyrir sér framtíð sjónvarpsins og hvernig þeir mundu haga sínu starfi. Þeir fengu sérfræðinga til að aðstoða sig við það og unnu greinargerð sem þeir skiluðu til þessa ráðningarráðs. Greinargerðirnar voru allar settar á netið. Þetta var allt opinn „prósess“. Þjóðin og áhugasamir fengu að fylgjast með hvernig þetta gekk og síðan á endanum valdi ráðið út frá þessum greinargerðum einn mann og rökstuðningur ráðsins var opinber. Þeir urðu að rökstyðja hvers vegna viðkomandi var ráðinn, hvað mælti með honum umfram aðra og hvers vegna viðkomandi hafði notið mests traust ráðningarráðsins. Í Frakklandi er talið mikilvægt að viðhafa vinnubrögð sem orka ekki tvímælis, að ferlið sé vandað, taki tíma og sé hafið yfir allan vafa um hagsmunatengsl. Ég hefði haldið að til verulega mikils sé vinnandi í okkar litla samfélagi að útbúa einhvers konar ráðningarferli sem gæti verið hafið yfir allan vafa um hagsmunatengsl.

Töluverð umræða, frú forseti, hefur orðið síðan fyrsta fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar kom fram um vinnubrögð, hlutverk og áhrifamátt fjölmiðla í samfélaginu. Ýmis mál hafa komið upp á síðustu missirum sem hafa vakið þessa umræðu, ekki bara þessi frumvörp sem um er að ræða heldur líka gagnrýni á fréttaflutning í fjölmiðlum. Það er ágætt að það sé haft í huga þegar þessi mál eru rædd. Það er eðlilegt að fréttaflutningur í fjölmiðlum sé gagnrýndur. En það er alvarlegt þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjá ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu og gagnrýna fréttaflutning eins og hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, núverandi dómsmálaráðherra, hefur gert. Ég nefndi áðan dæmin um Spegilinn.

Það hefur líka borið við að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi gengið fram fyrir skjöldu og gagnrýnt fréttaflutning fjölmiðla. Á síðasta ári sá hæstv. forsætisráðherra ástæðu til þess að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti furðu sinni á fréttaflutningi fjölmiðla vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak. Í yfirlýsingu þessa hæstv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, sagði, með leyfi forseta:

„Oftar en ekki hefur fréttaflutningurinn einkennst af útúrsnúningum og rangfærslum. Mjög hefur skort á að nákvæmni, vandvirkni og sanngirni hafi verið gætt.“

Það er ekki oft að forsætisráðherrar í löndum gangi fram fyrir skjöldu með jafnharða gagnrýni og hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hefur gert þegar hann hefur séð ástæðu til að gagnrýna fréttaflutning fjölmiðlanna, enda vakti þessi yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra verulega athygli og um hana var talsvert fjallað í fjölmiðlum og bæði fræðimenn og stjórnmálamenn tjáðu sig um hana á ýmsa lund.

Þær vangaveltur sem fóru af stað í tengslum við þessa yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra skiluðu sér á síður blaðanna, m.a. í viðtal við Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu þann 5. febrúar 2005. Þorbjörn lýsti því yfir að það væri sín skoðun að þó að hæstv. forsætisráðherra hefði séð ástæðu til að gagnrýna þetta svona harkalega þá sæi hann ekkert óeðlilegt við fréttaflutninginn af þessum stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. En hann viðurkennir að hér hafi fjölmiðlar fjallað um mikið álitamál og að almenningi hafi ekki staðið á sama um þetta mál. Það sem komið hafi frá stjórnmálamönnum hafi verið misvísandi og sitt á hvað, þeir hafi ekki verið samstiga í upplýsingum sínum sem gefnar voru til fjölmiðlanna og svörin frá stjórnarliðinu hafi verið loðin, það hafi nánast þurft að toga upp úr þeim svörin og síðan hafi stjórnvöld gjarnan mælst til þess að horft væri fram á við frekar en að einblína á það hvernig ákvörðunin um stuðning okkar við innrásina í Írak var tekin. En sannleikurinn er auðvitað sá að það er ekki í verkahring stjórnvalda að ákveða slíkt. Það er ekki í verkahring stjórnvalda að ákveða með hvaða hætti fjölmiðlar segja fréttir og það er ástæða til að halda stjórnvöldum frá því að hafa áhrif á hvernig fréttir eru sagðar, hvaða fréttir eru sagðar og hvaða fréttir ekki.

Það sem skiptir máli fyrir fjölmiðla okkar, fyrir þjóðlífið, fyrir umræðu í þjóðlífinu er að fréttamiðlarnir okkar séu trúverðugir og að algerlega sé hafið yfir allan vafa að nokkur hagsmunatengsl séu til staðar eða hagsmunaárekstrar.

Málið sem við nú afgreiðum er í mínum huga þannig útbúið að veruleg hætta er á að stjórnvöld fái þarna ítök sem gætu orðið hættuleg fréttaflutningi í landinu. Ég hef svo sem talað fyrir þeim sjónarmiðum áður og ítrekaði það í þessari ræðu minni að fara þurfi að með lýðræðislegri hætti til að tryggja fjölræði og fjölbreytni í fréttaflutningi og tryggja líka að lýðræðislegu hlutverki almannaþjónustu útvarpsins og Ríkisútvarpsins sé fullnægt.

Frú forseti. Full þörf er á að endurnýja innviði og starfsemi þá sem fram fer hjá Ríkisútvarpinu, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi. Það hefur lengi verið svo og öllum sem í þessum sal sitja er kunnugt um að gerðar hafa verið margar tilraunir til að ná utan um það hvernig mætti hugsa sér breytingar á stofnuninni. Settir hafa verið á fót margir starfshópar og þeir hafa margir skilað skýrslum sem reyndar eru ekki allar á einu máli um hvernig væri best að breyta Ríkisútvarpinu. Sumir starfshóparnir hafa skilað niðurstöðu sem byggir á því að best sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag en aðrir hafa skilað niðurstöðu sem gengur í allt aðrar áttir. Ég er með álitsgerð frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins frá október 1999 um nýsköpun Ríkisútvarpsins. Það er satt að segja afar fróðlegt að blaða í henni. Í henni má lesa svör starfsmannasamtakanna á þeim tíma við spurningum á borð við þessa: Hvers vegna ættu almennir starfsmenn Ríkisútvarpsins að hafa stefnu viðvíkjandi ríkisútvarpi?

Sömuleiðis má lesa hugleiðingar um forsendur Ríkisútvarps yfir höfuð, hlutverk þess, fjárhag og rekstrarvanda. Einnig er fjallað um hvers vegna Ríkisútvarpið njóti þess trausts sem raun ber vitni hjá þjóðinni og þó svo ríkisvaldið og stjórnvöld hafi að því er virðist róið að því öllum árum að veikja traust Ríkisútvarpsins meðal þjóðarinnar hefur þeim ekki orðið kápan úr því klæðinu. Það hefur ekki tekist. Enn er Ríkisútvarpið áreiðanlegasti fjölmiðillinn eða fréttamiðillinn í landinu að mati þjóðarinnar. Þetta kemur fram í skoðanakönnunum sem við höfum séð. Sömuleiðis er ljóst að Ríkisútvarpið sem stofnun nýtur mikils trausts sem öryggistæki og sem menningarstofnun vill þjóðin efla Ríkisútvarpið og innlenda dagskrárgerð.

Í þessari álitsgerð sem heitir Nýsköpun Ríkisútvarpsins er talað um að höfuðvandinn sem stafi af rekstri Ríkisútvarpsins sé óljós völd yfir dagskránni og að ráðningarmál séu í ólestri. Það er líka fjallað um að ónóg rækt sé lögð við starfsmenn. Síðan er varpað upp spurningunni hvað sé fram undan og tvær spár birtar, önnur bjartsýnisspá og hin svartsýnisspá. Svo eru nokkrir viðaukar sem eru mjög forvitnilegir eins og öll skýrsla þessa starfshóps. Það hefði svo sem verið nógu gaman að fara yfir þessa skýrslu í smáatriðum og tíunda hér ýmsar hugmyndir sem þar eru á borð bornar, hugmyndir um ráð við núgildandi aðstæðum Ríkisútvarpsins og hvernig megi efla það séð frá sjónarhóli starfsmannanna.

Það er bjargföst skoðun mín að engir eru jafnfærir í að greina vanda vinnustaðar síns og þeir sem starfa á viðkomandi vinnustað, þeir sem vinna á gólfinu. Ef á ekki að treysta niðurstöðum og hugmyndum sem koma frá starfsmönnum eftir talsvert mikla yfirlegu, eftir samtöl og samstarf, hverju á þá að treysta? Að mínu mati er það kjánalegt og fáránlegt að treysta stjórnvöldum einum og sér, án alls samráðs, fyrir stefnumótun stofnunar á borð við Ríkisútvarpið. Það er alveg ljóst að núverandi stjórnvöld sem setja fram þetta frumvarp um Ríkisútvarpið hf. hafa ekki kynnt sér hugmyndir starfsmanna Ríkisútvarpsins frá 1999 um nýsköpun Ríkisútvarpsins. Þar eru margar sprúðlandi hugmyndir sem hefðu svo sannarlega átt heima í vinnu stjórnvalda varðandi endurnýjun og endursköpun þessarar merku stofnunar en ekkert af því sem kemur fram hjá starfsmönnunum endar inni í því máli sem ríkisstjórnin leggur fram, enda kemur á daginn þegar starfsmenn gefa umsagnir um málið að þeir sjá alla meinbugi á því að þetta frumvarp leiði af sér kraftmikla og öfluga stofnun. Menn eru mjög málefnalegir í umsögnum sínum um þetta og rekja á hvern hátt þeir hefðu frekar viljað sjá stofnunina eflda.

Frú forseti. Þótt gaman væri að fara yfir hugmyndir starfsmanna frá 1999 ætla ég að sitja á mér með að gera það en fara þess í stað yfir í næsta kafla ræðu minnar sem ég geri ráð fyrir að geti orðið lokakaflinn þar sem nokkuð er liðið á kvöld og ekki var gert ráð fyrir að hafa langan kvöldfund. Það sem mig langar til að gera að umtalsefni undir lok ræðu minnar er að mér þykir mjög mikilvægt að halda því til haga að ýmis rök mæla með því að Ríkisútvarpið heyri áfram undir þau lög sem verið er að kippa því undan hér, þ.e. stjórnsýslulög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lög um umboðsmann Alþingis.

Meiri hlutinn hefur, eins og komið hefur fram, séð að sér varðandi upplýsingalögin. Án þess að færa að því nokkur rök hefur hann ákveðið að þetta félag, Ríkisútvarpið hf., muni nú heyra undir upplýsingalög en ekki undir lögin um umboðsmann Alþingis en ég vil til gamans vitna í 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis sem fjallar um hlutverk umboðsmanns Alþingis. Ég hefði viljað fá umræðu um það og vildi gjarnan spyrja meiri hluta menntamálanefndar að því hvers vegna ekki hafi verið hægt að ákveða það á milli umræðna að lögin um umboðsmann Alþingis giltu um þetta félag á sama hátt og upplýsingalögin mega nú allt í einu gilda, sem menn voru þó búnir að segja við 1. og 2. umr. að engin þörf sé á að gildi um hlutafélagið. Án rökstuðnings hafa þeir nú skipt um skoðun. Hvers vegna var ekki hægt að skipta um skoðun lengra og heimila að lög um umboðsmann Alþingis giltu um félagið? Í 2. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.“

Í 3. gr. segir um starfssvið umboðsmannsins:

„Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Starfssvið umboðsmanns tekur einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.“

Þessi lög eiga ekki að fá að gilda um Ríkisútvarpið hf. Umboðsmaður Alþingis sem á að hafa eftirlit með stjórnsýslunni á ekki að hafa eftirlit með Ríkisútvarpinu hf. sem þó er, eins og ég hef leitt rök að í máli mínu, grundvöllur lýðræðislegrar umræðu í landinu, ein af stoðunum undir lýðræðislega umræðu í landinu. Umboðsmaður Alþingis, sem samkvæmt laganna hljóðan á að gæta að því að lýðræðis sé gætt og þegnar landsins eða borgarar þess hafi lýðréttindi, á ekki að hafa heimildir samkvæmt þessum lögum til að skyggnast þarna undir yfirborðið. Enn höfum við ekki fengið að heyra neinn rökstuðning frá meiri hluta menntamálanefndar fyrir því hvers vegna upplýsingalögunum er kippt inn og félaginu kippt undir þau en ekki að sama skapi undir lögin um umboðsmann Alþingis.

Öll þessi umræða er í skötulíki hjá meiri hlutanum. Rökstuðningur er lítill sem enginn og verulega vantar á að fram fari málefnaleg umræða eða að þess sé gætt að þjóðin fái fullan skilning á því sem hér fer fram og er að eiga sér stað.

Frú forseti. Það er að mínu mati afar mikilvægt að hér á landi starfi almannafjölmiðill, fjölmiðill í almannaþjónustu sem tryggir þá hagsmuni sem felast í pólitískri og menningarlegri fjölbreytni í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Ég tel að þessum markmiðum sé hætta búin með því sem háeffunin gerir ráð fyrir, að þarna sé ákveðnum lögum kippt úr sambandi og ekki hægt að láta þau gilda, eins og lögin um umboðsmann Alþingis, þegar álitamál kæmu upp um þetta nýja félag.

Frú forseti. Ég held að nú sé hægt að fara að segja amen eftir efninu enda nokkuð liðið á kvöld, þó að hér sé sannarlega tilefni til að halda áfram og segja meira. Mér er það afar þungbært að þurfa að viðurkenna að hér hafi ekki verið hægt að tala um fyrir meiri hlutanum. Það er ekki gaman fyrir stjórnarandstöðuþingmann, sem hefur látið þetta mál brenna á sér, að viðurkenna að hér líti út fyrir að hann sé að lúta í lægra haldi og menn ætli ekki að láta sannfærast af innblásnum ræðum stjórnarandstöðunnar nema að litlu leyti. Ég ítreka að í framhaldsnefndaráliti minni hluta menntamálanefndar á þskj. 1251 er stjórnarmeirihlutinn gagnrýndur fyrir vinnubrögðin á þann hátt sem þar er sagt, að frumvarpstextar hafi verið undirbúnir í leynd hjá sérstökum trúnaðarmönnum flokkanna og að upplýsingum hafi verið haldið frá almenningi, fjölmiðlum, starfsmönnum Ríkisútvarpsins og þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Því er haldið fram að í stað þess að efna til almennrar umræðu um Ríkisútvarpið og reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um framtíðarskipan þess hafi forstöðumenn stjórnarflokkanna sammælst um tillögur sem einkennast annars vegar af kreddu og hins vegar af hrossakaupum.

Það er auðvitað ömurlegt til þess að vita þegar maður verður svo vitni að því núna eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar að þessum stjórnarflokkum skuli vera svo tamt að viðhafa slík vinnubrögð sem einkennast af kreddu og hrossakaupum, og ég sé því ekki annað en að minni hluti menntamálanefndar hafi lög að mæla í þessu framhaldsnefndaráliti og að sú kraftmikla og málefnalega umræða sem maður óskaði að gæti farið fram um málið hafi meira eða minna verið kaffærð eða drepið á dreif af stjórnarmeirihlutanum sem hefur ekki komið inn í hina málefnalegu umræðu um það nema að svo litlu leyti.

Frú forseti. Að lokum ómar hér enn í loftinu spurningin sem ég hef heldur aldrei fengið svör við, hvorki frá hæstv. menntamálaráðherra né formanni menntamálanefndar, en hún er sú: Úr því að hægt var að hafa pólitískt samráð og ná pólitískri sátt um hið almenna fjölmiðlafrumvarp, hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að freista þess að ná sömu sátt eða a.m.k. beita sömu vinnubrögðum við samningu frumvarps um Ríkisútvarpið? Mér þykir mjög miður að menn hafi farið þá leið sem hér hefur verið farin og lýsi miklum vonbrigðum með þær málalyktir sem virðast vera fyrir dyrum.