132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Frá árinu 1998 hafa niðurstöður reiknilíkans í samræmi við 39. gr. laga um framhaldsskóla verið grundvöllur tillagna til fjárlaga og skólasamninga milli framhaldsskóla og menntamálaráðuneytisins. Skólasamningarnir kveða á um samþykkt skóla og ráðuneytis, m.a. vegna fjárframlaga og námsframboðs. Í reglugerð um reiknilíkan til að reikna út kennslukostnað framhaldsskóla, sem sett var með stoð í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, sem gefin voru út 1999, segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Hlutverk reiknilíkansins er að tryggja jafnræði skóla til fjárveitinga í samræmi við stærð, gerð, staðsetningu og samsetningu náms. Líkanið skal tryggja eftir því sem frekast er unnt faglegt starf skólanna um leið og það stuðlar að aðhaldi í meðferð fjármuna vegna kennslu, rekstrar og stofnkostnaðar.“

Fljótlega eftir að farið var að nota reiknilíkanið kom fram nokkur óánægja með það, sérstaklega hjá verkmenntaskólunum, því margir töldu að reiknilíkanið kæmi ekki vel út fyrir iðn- og verkmenntaskólana. Miðað við það er fjöldi nemenda í fagbóklegum áföngum 25 en í sumum áföngum í verknámi er stundum aðeins innan við tugur nemenda sem sækir um nám. Því getur verið mjög óhagstætt fyrir skólana að þurfa að vera með 25 nemendur. Annað sem skiptir máli í verknámi er kennslurými. Samkvæmt fyrstu útgáfu reiknilíkansins voru allar stofur metnar eins óháð stærð og búnaði.

Menntamálaráðuneytið tók reiknilíkanið til endurskoðunar og greitt var samkvæmt nýju reiknilíkani til framhaldsskólanna fyrst árið 2003. Samkvæmt hinu nýja reiknilíkani var rekstrarframlögum til skólanna í heild að aukast og virðist nú vera tekið tillit til stærðar og notkunar stofnana. Í skólunum, sér í lagi verkmenntaskólunum, er mismunandi rafmagnsnotkun, þrif eru önnur í venjulegri bóknámsstofu, bílgreinum eða þar sem unnið er með matvæli. Í reiknilíkanið virðist vera tekið aukið tillit til framangreindra þátta, svo sem rafmagnsnotkunar, ræstinga og tækjakaupa. Eftir því sem best verður séð ættu þessar breytingar á reiknilíkani að koma betur út fyrir verkmenntaskólana en eldra reiknilíkanið. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra:

Hvaða áhrif höfðu breytingar á reiknilíkani framhaldsskóla sem komu til framkvæmda árið 2003 á verkmenntaskólana, þ.m.t. á hópastærðir í fagbóklegum áföngum og mat á kennslurými?