132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Jú, það er rétt að reiknilíkaninu fyrir skiptingu fjár til framhaldsskóla var breytt eftir fjögurra ára reynslutíma og breytingarnar tóku síðan gildi við fjárlagagerðina fyrir árið 2003. Breytingarnar voru nokkuð víðtækar en eðli líkansins er slíkt að breytingar einstakra liða eða forsendna fléttast hver inn í aðra og hafa mismunandi áhrif eftir skólum vegna samsetningar námsins, stærðar og staðsetningar. Aðalbreytingarnar 2003 snerust annars vegar um einföldun eða fækkun á forsendum almenns rekstrar, hins vegar um breyttan reikning húsnæðis og búnaðar. Megintilgangurinn var að framlög yrðu nær raunverulegum tilkostnaði vegna búnaðar á fermetra og þá mismunandi eftir námsgreinum í stað meðaltalsreiknings sem áður gilti. Með þessu móti batnaði hagur verk- og starfsnáms þar eð því var reiknað meira rými og dýrari búnaður en áður og komið til móts við þá gagnrýni sem hafði þá verið á reiknilíkanið um nokkurn tíma. Framlög samkvæmt líkani eru því hærri sem þessi búnaður skóla er dýrari og jafnframt í meiri notkun.

Á sama tíma, frú forseti, var bóklegum áföngum skipt í tvennt, þeir áfangar sem einkum falla að einstökum verknámsbrautum voru skilgreindir sérstaklega og kallaðir fagbóklegir áfangar síðan. Þetta merkir að nemendur í bóklegum verknámsfögum, fagbóklegum áföngum, þurfa ekki að vera nema 12 í stað um 20 áður til þess að framlög svari tilkostnaði við viðkomandi hóp. Við þessa breytingu eina fluttust yfir 100 millj. til verknáms miðað við það sem áður var.

Hvað húsnæði varðaði var breytingin í nýja líkaninu einkum fólgin í því að líta til nýtingar húsnæðisins. Útkoman úr þeim endurreikningi var óháð bóknámi eða verknámi.

Hvað varðaði framlög til eignakaupa var útkoma verknámsskólanna að jafnaði mun betri eftir breytingu, einkum þeirra sem þurfa dýrustu kennslutækin. Árið 2003, síðasta árið sem eldri gerð reiknilíkansins var notuð, voru 17 af 27 skólum sem féllu undir reiknilíkanið reknir með halla, þar af voru 11 sem kalla má hreina og klára verknámsskóla. Árið 2004, fyrsta heila árið þegar fjárveitingar voru í samræmi við nýja líkanið, voru þrír verknámsskólar í hallarekstri. Fullyrða má, frú forseti, af þessu að rekstrargrundvöllur verknáms og verknámsskóla hafi breyst til batnaðar frá því að þessar breytingar voru gerðar enda gæti skólar þess að halda nýtingu húsnæðis og hópstærðum í meðalhófi.

Það hefur líka margoft komið fram í umræðum hér á þingi, við fyrirspurnir og eitt og annað sem var rætt varðandi reiknilíkanið varðandi framhaldsskólana — og ég held að það sé alveg sjálfgefið, ég hef sagt það og fleiri ágætir þingmenn hér í þessum sal — að meginforsendur reiknilíkansins eru góðar en auðvitað ber ávallt að taka tillit til raunveruleikans. Það er sífellt verið að endurskoða, það er verið að athuga þær athugasemdir og ábendingar sem koma fyrst og fremst frá skólafólkinu, reiknilíkanið er í sífelldri endurskoðun til þess að mæta raunverulegri þörf. Þessi breyting sem var gerð árið 2003 hefur greinilega mætt þeirri gagnrýni sem var á reiknilíkanið, þ.e. að gera verknámsskólunum auðveldara að reka sig á grundvelli þessa náms sem er mun kostnaðarsamara en annað.