132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra og hv. fyrirspyrjanda hér að ranglátt reiknilíkan er búið að valda miklu tjóni í íslensku framhaldsskólakerfi vegna þess að það hefur mismunað verknámsskólum, það hefur mismunað heimavistarskólum, þeim skólum sem einkum eru í dreifbýli, og gert stöðu þeirra miklu óvissari.

Það hefur að nokkru leyti verið leiðrétt en þó ekki alveg, og fjarri því. Enn þá er það miðað við húsnæði, t.d. eru þessir skólar með miklu meira húsnæði almennt á hvern nemanda sem þeir hafa ekki fengið leiðréttingu fyrir. Þá standa þeir líka enn þá eftir með skuldir, bókfærðar skuldir frá fyrri árum þegar kerfið var sem ranglátast, og þeim er síðan gert að greiða þessar skuldir upp nú sem er líka ranglátt.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju eru þessar gömlu skuldir vegna rangláts reiknilíkans ekki skornar (Forseti hringir.) af skólunum?