132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[13:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Kemur til greina að leggja niður samræmd lokapróf í grunnskóla?

2. Telur ráðherra að prófin sýni með fullnægjandi hætti fram á færni grunnskólanemenda?

3. Telur ráðherra að leggja eigi meiri áherslu á að prófa færni í verklegum greinum í samræmdum lokaprófum í grunnskóla?

Það sem ég spyr hæstv. ráðherra um er hvort það komi til greina að hennar mati að endurskoða fyrirkomulag á samræmdum prófum í grunnskóla. Sjálfur tel ég að þau próf orki mjög tvímælis og tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á prófin að þau mæli kannski síst það sem mestu máli skiptir sem er færni í mannlegum samskiptum og lífsleikni hvers konar. Í reynd eru samræmd próf í grunnskólum lítið annað en inntökupróf í framhaldsskólana og til þess að mínu mati nokkuð vafasamt tæki þar sem aðrar færari og jafnvel sanngjarnari leiðir eru til til að velja nemendur inn í framhaldsskólana.

Ég tel að það eigi að endurskoða þetta mjög rækilega og hv. formaður menntamálanefndar tók nokkuð undir það sjónarmið hér í umræðum fyrir skömmu þegar samræmd stúdentspróf voru aflögð eftir að hafa verið mjög umdeild innan framhaldsskólakerfisins. Ég tel sjálfur að það eigi að fara sömu leið í grunnskólunum og það eigi að endurskoða mjög rækilega fyrirkomulag á samræmdum lokaprófum með það helst að markmiði að leggja þau af í núverandi mynd þó svo að til greina komi að halda eftir samræmdum prófum í tveimur greinum, íslensku og stærðfræði jafnvel. Ég held að önnur missi algjörlega marks, þetta sé álag á nemendur sem dragi orku og athygli frá öðru sem máli skiptir og þau nái ekki að standa undir því sem þau eiga að standa undir.

Þess vegna beini ég þeim fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra hvort til greina komi að hennar mati að leggja þessi próf niður og hvort þau nái þeim markmiðum sem prófin augljóslega eiga að hafa og tilgangur þeirra er. Einu sinni voru þessi próf fjögur, nú eru þau orðin sex, vissulega valkvæð að einhverju leyti en það er allt of mikil áhersla á samræmingu og miðstýringu í menntakerfinu. Ég held að það væri mjög gagnlegt og mikilvægt að byrja á því að leggja niður í núverandi mynd samræmd lokapróf í grunnskólum og finna aðrar og betri leiðir til að ná þeim markmiðum að mæla nemendur inn í framhaldsskólana. Ég held að þau vinni heilmikinn skaða þar á móti af því að samræmdu lokaprófin í grunnskólum flokka fólk líka niður með mjög rækilegum og afdráttarlausum hætti sem fylgir fólki síðan oft með mjög neikvæðum afleiðingum út í lífið. Ég held að samræmd lokapróf í grunnskólum séu varasamt (Forseti hringir.) tæki sem við eigum að leggja af.