132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Forseti. Í byrjun mars síðastliðnum var skipuð nefnd sem fékk það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun á grunnskólalöggjöfinni, að mínu mati ein mikilvægasta nefndin sem er að störfum núna, og þá í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Til að tryggja sem besta yfirsýn yfir þær breytingar sem æskilegt er að gera á grunnskólalögunum á nefndin m.a. að ræða við fulltrúa frá öðrum ráðuneytum, svo sem frá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, umboðsmanni barna, Samtökum fámennra skóla, Samtökum sjálfstæðra skóla, kennaramenntunarstofnunum, sérfræðiþjónustu, Námsmatsstofnun, Námsgagnastofnun, Hagstofu Íslands og enn fremur að sjálfsögðu fulltrúa kennara sem eiga líka sæti í nefndinni og kanna og fá fram sjónarmið grunn- og framhaldsskólanema.

Eitt af því sem að sjálfsögðu verður skoðað og rætt um við hagsmunaaðila er núverandi fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í lok grunnskóla og hvort gera þurfi breytingar á formi þeirra og/eða fyrirkomulagi. Nefndin mun skila stuttri áfangaskýrslu í september og fullunnu frumvarpi eigi síðar en í lok desember á þessu ári. Þá mun liggja fyrir hvort nefndin og samráðsaðilar telja þörf á breytingum á samræmdum lokaprófum í grunnskólum og þá hvaða breytingum. Ég mun að sjálfsögðu í kjölfarið meta málið eftir að hafa fengið tillögurnar í hendur.

Að mínu mati má segja að samræmd próf séu að hluta til æskilegur þáttur til að meta árangur grunnskóla. Þá tala ég ekki síst sem foreldri. Skólastarf í landinu er að hluta til bundið í lögum og reglugerðum sem ríkisvaldinu — það er rétt að hafa það í huga — ber skylda til að veita eftirlit til að meta árangur og hvort skyldur séu uppfylltar. Samræmd próf má segja að séu einn þáttur í þessu mati.

Þó er eðlilegt, og rétt að undirstrika það líka, að matið sé alltaf í endurskoðun út frá breytingum samfélagsins og út frá sjónarmiðum hagsmunaaðila. Enn frekar þarf að huga að mati annarra þátta skólastarfs í þessu samhengi, svo sem mati á verklegri og listrænni kunnáttu nemenda. Þetta verða að sjálfsögðu allt saman þættir sem þessi faglega nefnd mun fara yfir og skila síðan lokatillögum um.

Síðan er spurt: Telur ráðherra að prófin sýni með fullnægjandi hætti fram á færni nemenda?

Samræmdum prófum er ætlað að mæla tiltekna þætti, frú forseti, sem áhersla er lögð á í aðalnámskrá grunnskóla. Þegar prófverkefni eru samin er markvisst leitast við að prófa með kerfisbundnum hætti hluta þeirra atriða sem áhersla er lögð á í aðalnámskrá. Ítrekað hefur komið fram í mati og samræðum við kennara, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, að frammistaða nemenda á samræmdum prófum endurspegli færni nemenda í námsefninu. Hér er verið að styðjast við það sem fagaðilar segja. Má í því sambandi benda á að prófin eru talin hafa leitt í ljós sterk tengsl milli frammistöðu nemenda á samræmdum prófum og þörf fyrir upprifjun í sérstökum áföngum í framhaldsskólum þar sem farið er aftur yfir námsefni grunnskólans. Jafnframt er talið að prófin hafi leitt í ljós sterk tengsl milli niðurstaðna þeirra og niðurstaðna síðan alþjóðlegra rannsókna eins og PISA og Pearls.

Síðan er spurt: Telur ráðherra að leggja eigi meiri áherslu á að prófa færni í verklegum greinum í samræmdum lokaprófum í grunnskóla?

Það er rétt að geta þess að samræmdu prófin eru núna sex. Þau eru valkvæð og eru í dönsku, ensku, íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og stærðfræði. Inntökuskilyrði í framhaldsskóla taka mið af frammistöðu nemenda á samræmdum prófum en ekki síður af skólaeinkunnum. Nemendur þurfa síðan að standast frekari viðmiðunarkröfur til að komast inn á einstakar brautir. Gerðar eru kröfur um lágmarkseinkunn í fjórum bóklegum greinum til að komast inn á bóknámsbrautir svo að dæmi sé tekið. Skólameisturum er heimilt að setja skilyrði í skólanámskrá til inngöngu á starfsnámsbrautir framhaldsskóla og eiga slík skilyrði að taka mið af frammistöðu nemenda í verk- og listgreinum í grunnskóla og/eða öðrum þáttum sem snerta sérsvið viðkomandi brautar.

Hefur það fyrirkomulag — það er verið að treysta grunnskólanum sjálfum, það er rétt að hafa það hugfast — að treysta grunnskólanum sjálfum fyrir að meta árangur nemenda í list- og verkgreinum þótt gefast ágætlega. Hins vegar hefur komið til álita að taka upp samræmd próf í list- og verkgreinum sem mér hugnast vel. Þannig er val nemenda um samræmd próf aukið, valið er aukið, og verk- og listnámsgreinum gert jafnhátt undir höfði og þeim bóklegu. Þetta atriði er eitt af því sem nefnd um heildarendurskoðun á grunnskólalöggjöfinni mun fjalla um.

Hér var rætt um samræmingu og miðstýringu varðandi prófin. Þvert á móti vil ég benda hv. þingmanni á að ég hef m.a. breytt reglugerðum til að auka fjölbreytni, til að auka á sveigjanleika í skólakerfinu. Það gerði ég á síðasta ári þegar ég breytti reglugerð um fyrirkomulag á framkvæmd samræmdra prófa í 10. bekk grunnskóla. Hvað fólu breytingarnar í sér? Þær fólu í sér aukna þjónustu við nemendur sem nú fá aukinn sveigjanleika til að taka samræmdu prófin í 8. bekk og 9. bekk og einnig er gert ráð fyrir því að þau geti einu sinni endurtekið lokaprófið.

Þetta veitir að sjálfsögðu, frú forseti, bráðgerum og duglegum nemendum (Forseti hringir.) aukinn sveigjanleika í grunnskólanámi sínu og þessar breytingar eru í takt við einstaklingsmiðaða kennsluhætti og munu draga til lengri tíma úr þeim áhrifum að samræmd próf miðstýri skólastarfi.