132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að nú skuli blása þeir vindar í menntamálaráðuneytinu að verið sé að opna og gera menntakerfið sveigjanlegra hvað það varðar að draga úr miðstýringu og samræmdum prófum. Við fengum það í gegn fyrr hér í vor að felldar voru niður hugmyndirnar um samræmd próf í framhaldsskólum og nú þróast þetta vonandi yfir í að svo verði einnig í grunnskólanum. Eins og þessi samræmdu próf hafa verið iðkuð hafa þau fyrst og fremst falist í afmörkuðum bóklegum prófum. Fólk sem hefur haft áhuga á list- og verkgreinum hefur þá gjarnan orðið undir í þeim samanburði.

Auk þess er kennarastéttin ein menntaðasta starfsstétt á Íslandi og er þess vegna mjög rækilega trúandi fyrir því að bæði framkvæma (Forseti hringir.) námið og meta námsárangur hjá nemendum og þannig stuðla að fjölbreyttu og góðu (Forseti hringir.) skólastarfi.