132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

íþróttastefna.

753. mál
[14:23]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það hafi verið afskaplega vel til fundið hjá hæstv. ráðherra íþróttamála, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að setja þetta starf af stað. Ég tek undir með henni að það skiptir mjög miklu máli. Það er gott að þessi umræða sé hér og að sem flestir komi að málinu, komi með hugmyndir og athugasemdir því að svo sannarlega er það samstarfsverkefni að íþróttavæða Ísland og gott að fleiri komi að því en ríkisvaldið.

Hins vegar er rétt að taka fram að ríkisvaldið hefur gengið á undan með góðu fordæmi hvað þetta varðar ef við lítum bara á fjárhagshliðina. Árið 2000 voru framlög á hverju ári 174 millj. en hafa hækkað um 123% og eru nærri því 400 millj. á árinu 2006. Hins vegar er það þannig og hv. þingmaður veit það auðvitað að góðir hlutir þurfa ekki endilega að kosta peninga og það skiptir líka máli að hugarfarið sé rétt og að við stefnum öll í sömu áttina, þ.e. að íþróttavæða Ísland.