132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

íþróttastefna.

753. mál
[14:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Valdimar L. Friðrikssyni og undirstrika mikilvægi íþróttanna og þess að íþróttavæða Ísland. Ég vil líka þakka honum hlý orð í minn garð en undirstrika um leið að það er ekki eingöngu ríkisvaldið sem hefur staðið sig ágætlega á síðustu árum. Sveitarfélögin hafa ekki síður gengið á undan með góðu fordæmi, með því bæði að reisa og reka öflug íþróttamannvirki sem og að koma að starfinu með öflugum hætti. Þó að það sé með mismunandi hætti á milli sveitarfélaga hafa sveitarfélögin staðið með miklum sóma að því að tryggja okkur möguleika á því að íþróttavæða Ísland.

Síðan er gott að vita til þess að foreldrar, fjölskyldur og íþróttafélög eru reiðubúin til þess að fara af stað með okkur í þá för að íþróttavæða Ísland.