132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

námsbækur.

764. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort gerð hafi verið úttekt á gæðum námsbóka í íslenskum skólum. Ef svo er hverjar eru helstu niðurstöður hennar? Ef svo er ekki stendur til að gera slíka úttekt? Stendur til að ráðast í átak til að bæta námsbókakost í grunn- og framhaldsskólum? Telur ráðherra bókakost í skólum landsins viðunandi eða góðan?

Fyrr á þessu ári var gerð nokkur úttekt í fjölmiðlum á því hver staðan væri á námsbókakosti framhaldsskólanna. Niðurstaða þeirrar umfjöllunar var sú að hann væri ákaflega bágborinn í mörgum greinum, þar væri margt að og stórátaks væri þörf. Þá væri ekkert eftirlit uppi af hálfu menntamálaráðuneytisins með gæðum námsbóka og því hvort námsbækur uppfylltu kröfur námskrár o.fl. Tekin voru dæmi af því að í sex áföngum í mannkynssögu í framhaldsskólunum eru einungis til bækur í kennslu fyrir þá þrjá fyrstu.

Þá voru rakin mörg mjög ítarleg dæmi um miklar staðreyndavillur í námsefni um trúarbrögð og menningu. Allt bar að sama brunni, stórátaks væri þörf og það átak þyrfti sérstaklega að felast í því að efla námsefnissjóð af því að ófremdarástand ríkti að mörgu leyti í námsbókagerð á framhaldsskólastiginu, aðallega vegna skorts á fjármagni og eins vegna hins að ekkert gæðaeftirlit væri uppi af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Það má taka fram að Ísland er eina landið sem innheimtir neysluskatt af námsbókum. Sá neysluskattur gefur ríkinu í aðra hönd 16 millj. kr. á ári sem er um það bil sú sama upphæð og ríkið leggur til námsefnisgerðar sem eru 19,9 millj. kr.

Þá má geta þess, til að fá betri samanburð, að í námsefnissjóð bárust umsóknir fyrir tæplega 80 millj. kr. en einungis var úthlutað af hálfu hins opinbera innan við 20 millj. kr.

Þá hljótum við að spyrja okkur þeirra spurninga hvort við eigum ekki að fara sömu leið og hin Norðurlöndin, að námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu rétt eins og í grunnskólum. Þannig er það annars staðar á Norðurlöndunum. Það er gert til að jafna námsaðstöðu og jafnræði nemenda. Svo bætist það við að framboð af námsefni er algerlega óviðunandi vegna skorts á fjármagni frá hinu opinbera, námsbækur standast ekki kröfur og mikið skortir þar á. Framboð kennslubóka helst þá engan veginn í hendur við aðalnámskrá framhaldsskólanna að mati þeirra sem gleggst þekkja til.

Því hlýtur hæstv. ráðherra að hafa metnað og vilja til að ráðast í átak til að efla námsbókakost framhaldsskólans verulega. Ég beini þessum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra þar sem þetta liggur gæðum íslensks náms að sjálfsögðu til grundvallar eins og kennslan sjálf.