132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

námsbækur.

764. mál
[14:41]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Auðvitað er það þannig að gott námsefni kostar einhverja peninga. Hvort heldur það er prentað á pappír eða á rafrænu formi hlýtur að þurfa að verja til þess mannafla og vinnslu sem kostar peninga.

Mér finnst 30 millj. kr. ekki há upphæð til að halda við eða endurnýja bókakost fyrir framhaldsskólana. Ég spyr mig að því hvort hér séum við að láta danka, hvort hér þurfi ekki að gera betur. Við vitum að stöðug endurnýjun á námsefni þarf að fara fram. Samtíminn krefst þess. Framþróunin krefst þess. Það hafa m.a. verið gerðar úttektir á námsefni hvað varðar kynjasjónarmið og ýmislegt miður komið fram og ýmislegt annað sem varðar samtímasöguna.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort einhvers staðar fari fram óháð mat, þ.e. mat utan ráðuneytisins, á gæðum námsefnisins, á því efni sem borið er á borð fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum.