132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. málshefjanda og fyrirspyrjanda um skoðanakannanir, hvort eðlilegt sé að gerðar séu viðamiklar kannanir í aðdraganda kosninga alveg fram á síðustu stundu. Að mínu viti er það ekki bara svo að þær lýsi stöðunni eins og hún er þegar könnun er gerð heldur er ekki hægt að útiloka að könnunin sjálf geti líka haft áhrif á skoðun almennings. Þetta er því bæði spurning um orsök og afleiðingu í þessu efni. Ég minni á að dæmi eru um það erlendis að kannanir séu bannaðar síðustu dagana fyrir kosningar. Ég er dálítið hallur undir þau sjónarmið.

Ég vil líka gera athugasemdir við skoðanakannanirnar sem slíkar, hversu fátæklegar þær eru. Það er einvörðungu spurt um afstöðu til flokka eða persóna en nánast ekkert um afstöðu til málefna. Ég man ekki eftir neinni könnun fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um stærstu málefnin sem voru efst á baugi á höfuðborgarsvæðinu svo dæmi sé nefnt.