132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[15:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það var aldrei meiningin að vera með útúrsnúninga. Það er einfaldlega þannig að Félagsvísindastofnun heyrir stjórnskipulega undir Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Við verðum einfaldlega að treysta því að það sem þaðan kemur sé byggt á faglegum grunni, enda hef ég ekki orðið vör við annað. Þetta er grundvallaratriði í þessu máli.

Síðan verð ég líka að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur sem kom inn á það sem er líka þýðingarmikið í þessu sambandi, þ.e. að það eru ákveðin vísindi að stunda rannsóknir. Það skiptir miklu máli að skoðanakannanir séu faglega framkvæmdar. Ég get ekki annað séð en bæði opinberir aðilar eins og Háskóli Íslands eða Félagsvísindastofnun, sem og einkaaðilar, hafi staðið sig í meginatriðum vel við gerð skoðanakannana. Það væri miklu frekar að gera kröfu til einkaaðila sem sjá um skoðanakannanir að þeir standi sig og þeir hafa gert það. Við getum nefnt Gallup og fleiri ágæt fyrirtæki sem hafa gert þetta vísindalega. Þetta eru rannsóknir sem eiga sér stað. Þeir viðhafa faglegar rannsóknaraðferðir til að nálgast niðurstöðu, niðurstöðu sem við eigum síðan í meginatriðum að geta treyst.

En það verður nú stundum að segjast að skoðanakannanir eru eitt og niðurstöður kosninga eru annað. Við sjálfstæðismenn verðum bara að bíta í það súra epli að við erum alltaf aðeins hærri í skoðanakönnunum en það sem kemur síðan upp úr kjörkössunum. (Gripið fram í: Líka við.)