132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:02]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Þörfin fyrir nýjan framhaldsskóla í Suðvesturkjördæmi er augljós og aðkallandi að mínu viti. En fyrirspurn þessi sem hv. þm. Samfylkingarinnar Rannveig Guðmundsdóttir lagði fyrir er til þess gerð að kalla fram hvaða áform hæstv. menntamálaráðherra hafi um uppbyggingu framhaldsskóla í Suðvesturkjördæmi og þá hvort stofnun nýrra framhaldsskóla í Mosfellsbær, Kópavogi og Hafnarfirði hafi verið tímasett.

Áhugi sveitarstjórnarmanna í Suðvesturkjördæmi á uppbyggingu nýrra framhaldsskóla er skiljanlega mikill. En eðli máls samkvæmt þarf að nást um það samkomulag milli ríkis og sveitarfélags eða félaga að sækja fjármagn til uppbyggingarinnar í ríkissjóð. Það beinir reyndar augunum að því hversu heppilegt það sé að hafa framhaldsskólann hjá ríkinu en ekki sveitarfélögum. En það er hins vegar ekki efni þessarar fyrirspurnar.

Aftur að Suðvesturkjördæmi. Í nóvember síðastliðnum gerði Kópavogur samning við Knattspyrnuakademíu Íslands um uppbyggingu heilsu-, íþrótta- og fræðaseturs í Kórahverfinu. Við það tækifæri lét Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs og flokksbróðir menntamálaráðherra þau orð falla að nauðsynlegt væri að reisa nýjan framhaldsskóla í Kópavogi og það sem meira er, að beinlínis sé gert ráð fyrir því í samningi bæjarins við knattspyrnuakademíuna að nýr framhaldsskóli rísi í Kórahverfinu. Hann viðurkenndi hins vegar að ekki hefði verið gengið frá öllum lausum endum í því efni.

Svo gerðist það í Mosfellsbæ daginn fyrir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn fullyrti að næsti framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi mundi rísa í Mosfellsbæ. Þar fór fyrir sjálfstæðismönnum eins menn vita, flokkssystir Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ, væntanlega fráfarandi bæjarstjóri.

Þá er ekki nema von að menn staldri við og vilji vita hvar hinn nýi framhaldsskóli eigi að rísa. Verður hann í Kópavogi, verður hann í Mosfellsbæ eða verður hann kannski í Hafnarfirði, frú forseti?