132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er fróðleg umræða. Hér er spurt um hvar nýr framhaldsskóli á tilteknu svæði eigi að koma. Menntamálaráðherra svarar með því að nefnd sé í gangi, að fróðir menn segi þetta og hitt, að hæstv. ráðherra muni eftir góða stund ákveða hvernig þetta verður og það þurfi nú fjárveitingar hjá öðrum ráðherra og svona. Síðan er því lýst að flokksmenn ráðherrans í ákveðnu sveitarfélagi lofuðu fyrir kosningarnar að ráðherra ætli að setja skólann niður þar. Enn er spurt að því hvort ráðherrann, ef hún setur nú skólann niður þar, ætli nú að gera það í miðbæ þessa sveitarfélags eða einhvers staðar niður við ströndina eða uppi í dalnum.

Þetta sýnir náttúrlega hvað það er innilega fáránlegt að við skulum enn þá hafa þetta þannig að framhaldsskólarnir séu á valdi eins tiltekins ráðherra. Sveitarfélögin eiga auðvitað að ráða framhaldsskólanum og ákveða sjálf ein sér eða mörg saman hvar þeir skuli byggðir og láta svo menntamálaráðherra vita af því. Þetta er stefna okkur samfylkingarmanna og ég vona að hún komist sem fyrst í framkvæmd. Þá mundum við losna við umræður af þessu tagi, niðurlægjandi umræður af þessu tagi í þingsalnum.