132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:13]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra er búin að gera könnun og að hún liggur fyrir. Hins vegar nam ég það ekki af máli menntamálaráðherra að búið væri að taka neina ákvörðun um hvar næsti framhaldsskóli, hinn nýi framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi, ætti að rísa. Eru þá væntanlega fallin um sjálf sig kosningaloforð sjálfstæðismanna í Kópavogi og Mosfellsbæ. Það er kannski annað mál. Hins vegar skiptir máli fyrir fólkið í þessum byggðarlögum og í þessum sveitarfélögum að vita hvort við erum að tala um viðbyggingar eða nýbyggingar, stækkanir eða nýja skóla með þeim möguleikum sem nýir skólar veita sveitarfélögunum. Vissulega er það alveg rétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni, eins og kom fram í framsögu minni, að miklu nær væri að hafa þetta hjá sveitarfélögunum. Þá væri þetta í nærumhverfinu og stjórnin allt önnur í stað þess að þurfa að sækja málið með þessum hætti.

Það er rétt að verið er að stækka Flensborg. Tíðindi voru að berast um að stækka ætti FG. Allt eru þetta mjög góð tíðindi. Ég gleðst líka yfir því að verið sé að skoða Iðnskólann í Hafnarfirði. Það hafa líka komið fram tillögur frá Hafnfirðingum um að setja niður Listmenntaskóla á Völlunum í Hafnarfirði. Nógar eru því hugmyndir sveitarstjórnarmanna um uppbyggingu.

Hins vegar kom ekki fram í máli hæstv. menntamálaráðherra hvort hún ætli á grundvelli nefndarstarfsins að taka af skarið um hvar næsti nýi framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi eigi að rísa. Mér finnst full ástæða til þess að það komi fram hér og nú.