132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Mér finnst merkilegt að ekki megi verða framfarir í skólamálum ef sjálfstæðismenn koma að málum og það sé gagnrýnisvert að sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ hafi undanfarin fjögur ár verið að knýja dyra og knýja svara varðandi uppbyggingu framhaldsskólans í Mosfellsbæ, hvort þangað komi framhaldsskóli.

Sem ráðherra ber ég hins vegar ábyrgð á því að reyna að kortleggja þarfirnar þannig að við getum sinnt óskum nemenda á þessu svæði og þeir komist inn í framhaldsskóla. Hópurinn sem var skipaður skoðaði þetta fram til 2014 og það er alveg ljóst að hann leggur til á grundvelli nálægðarsjónarmiða og byggðasjónarmiða að farið verði í uppbyggingu eða skipulagningu á framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og síðan verði farið í uppbyggingu í Mosfellsbæ. Það eru fyrstu verkefnin.

Hópurinn legur jafnframt til að hugað verði að hinni miklu íbúafjölgun á norðausturhluta höfuðborgarsvæðisins, þ.e. í Norðlingaholtinu, Vatnsendasvæðinu, og leggur til að hugað verði að uppbyggingu á því svæði.

Ég vil hins vegar ítreka að það er mikilvægt að við áttum okkur á því hver forgangsröðunin er. Ég mun sérstaklega líta til þessara tillagna og þessarar skýrslu frá hópnum sem vísbendingar og vegvísis til þess að móta starfið. Það er alveg ljóst að hann segir Mosfellsbær fyrst og síðan uppbygging á norðausturhluta höfuðborgarsvæðisins ásamt utanverðum Eyjafirði. Við erum því búin að kortleggja það hverju við viljum sinna og hvernig við viljum sinna þörfum framhaldsskólanemenda, ég tel að það sé fyllsta ástæða til þess.

Við vitum að stefnumótunin verður að liggja fyrir, síðan er annað að tryggja fjármagn til frekari uppbyggingar. Það þurfum við auðvitað að tryggja í gegnum fjárlög. En það er gott varðandi stefnumótunina að við vitum hverjar þarfirnar eru. Þær liggja fyrir og við vitum hvernig á að nálgast þær.