132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hugverkastuldur.

763. mál
[15:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hvert er áætlað hlutfall hugverkastuldar í íslensku hagkerfi og hvert er áætlað hlutfall hugverkastuldar í hagkerfi heimsins?

2. Hefur farið fram úttekt á hugverkastuldi á Íslandi og hlutfalli hans í íslensku hagkerfi, og ef svo er, hver var niðurstaðan? Hafi slík úttekt ekki farið fram, er hún fyrirhuguð?

Það liggur fyrir að hugverkastuldur er alvarlegt og vaxandi vandamál í hagkerfinu. Mörg gögn benda til þess að brotatíðni sé nokkuð há í þessum málum hér á landi og þau réttarfarsúrræði sem fyrir hendi eru séu ekki nægilega virk. Er enda stefnt að því að styrkja stöðu rétthafa hugverka þegar um viðskipti er að ræða, ekki síst með hliðsjón af því hvernig brugðist verði við í nágrannalöndum okkar á næstu missirum — það liggur fyrir að hugverkastuldur er vaxandi og viðvarandi vandamál út um allan hinn vestræna heim.

Því til glöggvunar má geta þess að þann 15. október 1998 skilaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins svonefndri grænbók, grænni bók um aðgerðir gegn eftirlíkingum, sjóræningjaútgáfum á vörumerkjum, mynd- og hljóðefni og hugbúnaði á innri markaði Evrópusambandsins. Í þeirri grænu bók kemur fram að þessi brot gegn hugverkaréttindum námu á bilinu 5–7% af heimsviðskiptum fyrir átta árum. Engin ástæða er til að draga í efa að hugverkastuldur hafi færst verulega í vöxt síðan, ekki síst með efnahagslegum uppgangi og samfélagslegum í löndum Asíu eins og í Kína og víðar. Brot á hugverkaréttindum gætu því verið komin vel upp fyrir þessa tölu, 5–7% af heimsviðskiptum, sem er gífurlega há tala. Þetta ógnar að sjálfsögðu innri markaðnum með því að skekkja samkeppni og draga úr verðgildi fjárfestinga og áhrifin eru að sjálfsögðu margs konar.

Hér á landi hefur umfang brota gegn hugverkaréttindum ekki verið kannað ítarlega svo að ég viti. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra og skora á hann að beita sér fyrir slíkri úttekt hafi hún ekki farið fram eða sé hún ekki í gangi.

Jafnframt bendir ekkert til þess að tíðni brota af öðru tagi gegn hugverkaréttindum sé önnur og lægri hér á landi en í grannlöndunum og með því megi ganga út frá því að hér á landi sé í einhverjum mæli markaður með ólöglegar fjölfaldanir, t.d. á mynd- og hljóðefni á geisladiskum, eftirlíkingum á merkjavöru og ólöglegum hugbúnaði. Því er fyllsta ástæða til að fara ítarlega í þessi mál, rannsaka umfang hugverkastuldar og grípa til markvissra aðgerða gegn honum.