132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hugverkastuldur.

763. mál
[15:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna. Það liggur fyrir að ekki hefur farið fram mæling á umfangi þess sem kalla má hugverkastuld, hvort sem um er að ræða hugbúnað, sem er vissulega algengast, mynd- og hljóðefni á geisladiskum, eftirlíkingar á merkjavöru eða ólöglegan hugbúnað svo nefnd séu alvarlegustu tilvik brota gegn hugverkaréttindum. Á sumum sviðum má jafnframt reikna með að tíðni brota sé umtalsverð og að sjálfsögðu fyrst og fremst um fjölföldun tölvuforrita að ræða eins og hæstv. ráðherra gat um og reynslan hefur leitt í ljós erlendis. Þá hefur vafalaust áhrif hér á landi eins og annars staðar að tækni hefur fleygt fram. Nú er mjög auðvelt að fjölfalda hvers konar mynd- og hljóðefni með mjög litlum tilkostnaði og fyrirhafnarlítið svo vægt sé til orða tekið og oft án þess að gæðin verði mun lakari.

Fyrir nokkrum árum voru gæði á sjóræningjaefni eða stolnu efni hvers konar oft mun lakari en á hinu raunverulega efni og stóð það þessum undirheimaiðnaði töluvert fyrir þrifum. Nú er staðreyndin sú að það er hægt að falsa og líkja eftir myndefni, hljóðefni og hvers kyns merkjavöru og hugbúnaði með ævintýralega góðum árangri. Það hefur, að ég held, hleypt nýju lífi í hugbúnaðarstuld og hugbúnaðarþjófnað af hverri sort. Ég tel ekkert benda til þess að það sé að dragast saman hér á landi. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að úttekt og mæling á hugverkastuldi liggi fyrir rétt eins og það liggur fyrir hvert hlutfall af hugverkastuldi er í hagkerfinu víða erlendis, fyrir átta árum var talað um að það væri 5–7%. Það hefur dregist saman í einhverjum löndum, sagði hæstv. ráðherra, það er ágætt. En ég held að það sé áríðandi og mikilvægt að einmitt dómsmálaráðuneytið beiti sér fyrir slíkri mælingu (Forseti hringir.) eða hafi alla vega forgöngu um það.