132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hrefnuveiði.

772. mál
[15:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. ráðherra væri að draga til baka ummæli sín um að hægt væri að kenna hrefnunni um þessa misheppnuðu uppbyggingu þorskstofnsins enda held ég að það sé augljóst. Hann nefndi hér að veiðar á 400 hrefnum skiptu einhverjum sköpum eða mögulega gerðu það. Ég verð að minna hæstv. ráðherra á það að hann er að tala um innan við 1% af stofninum og hann er einnig að tala um það að þessar veiðar hafi ekki áhrif á stofnstærðina. Þess vegna er hann í rauninni að segja að veiðarnar skipti litlu sem engu máli, samandregið, en ég er fylgjandi hvalveiðum og ég tel að við eigum að nýta þessi dýr eins og önnur dýr hafsins.

Það sem ég benti á var að sjálfsrán er miklu nærtækari skýring á því hve illa gengur. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að íhuga það sem ég benti honum á, að ef einn þorskur sem er að koma inn í veiðina étur einu sinni þorsk yfir árið eru það um 200 millj. einstaklinga sem hann étur. Ef þessi fiskur sem hann étur er hálft kíló hverfa þarna 100 þús. tonn. Auðvitað eiga menn að líta á stærstu leikarana í vistkerfinu, þ.e. fiskana sjálfa, en ekki horfa alltaf á hvalina og síðan það hvað við tökum upp úr hafinu. Það eru þættir sem skipta miklu minna máli en orkuflæðið sem er í vistkerfinu. Þá er ég að tala um fiskana sjálfa. Ég vonast til að þessi umræða verði til þess að hæstv. ráðherra nái nú áttum. Það er allsvakalegt að vera með svona ummæli og telja að veiðar á nokkrum tugum eða hundruðum hrefna skipti höfuðmáli varðandi stjórn fiskveiða. Það eru aðrir þættir sem skipta miklu máli og ég er tilbúinn að taka hæstv. ráðherra á ný í líffræðikennslu (Forseti hringir.) og útskýra fyrir honum eitt og annað hvað varðar vistkerfi hafsins þannig að hann fái aðra ráðgjafa en þá sem hann hefur nýtt (Forseti hringir.) undanfarna áratugi sem hafa gagnast hvorki eitt né neitt.