132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla.

773. mál
[15:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessi fyrirspurn á sér forsögu í annarri sem svarað var 5. apríl um mat iðnaðarráðherra og stofnana hennar á nýtanlegri vatnsorku á Íslandi með fullu tilliti til umhverfisverndar. Iðnaðarráðherra var líka spurð að því þá hvort hún stæði enn við þá fullyrðingu sína eða staðhæfingu á iðnþingi 2005 að við ættum að láta staðar numið við eina milljón tonna í ársframleiðslu áls sem er reyndar 5% af heimsframleiðslu áls. Það fór nú svo um þá fyrirspurn að svörin við henni voru ekki ákaflega greið. Iðnaðarráðherra sagði að vísu að viðmiðunin við 30 teravattstundir, sem sérstaklega var tiltekin úr þremur ritum sem iðnaðarráðherra hefur staðið að með ýmsum hætti, sá sem nú situr eða hinir fyrri, að reyndar væri kominn vafi á það og hæstv. iðnaðarráðherra vitnaði sérstaklega til orkumálastjóra á ársfundi Orkustofnunar árið 2004 sem taldi að nær væri að miða við 26 teravattstundir. Kann að vera að þær 4 teravattstundir sem hér munar tengist Jökulsá á Fjöllum. Að minnsta kosti var þessu svarað en þó þannig að þetta væri mat sem héngi í lausu lofti. Þess vegna tel ég rétt að gefa hæstv. iðnaðarráðherra færi á að nefna sína eigin skoðun, sína eigin stjórnmálastefnu um hve mörg teravött hún telji að megi fá árlega úr vatnsföllum hérlendis með hagkvæmum hætti að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Ég tel líka að rétt sé að gefa ráðherranum tækifæri til — vegna þess að umræðurnar um síðustu fyrirspurn fóru að snúast um aukaatriði máls sem ég á jafnmikla sök á og iðnaðarráðherrann — að ítreka eða breyta afstöðu sinni frá iðnþingi í fyrra eða að minnsta kosti orðræðu hennar í kringum iðnþing í fyrra svo við drögum stóran hring í kringum þetta, um að „þegar framleiðsla í stóriðju verði komin í sem svarar til einnar milljónar tonna álframleiðslu á ári verði af ýmsum ástæðum rétt að láta gott heita“ eins og stóð í endursögn Íslensks iðnaðar frá mars–apríl 2005.