132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla.

773. mál
[15:47]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir öll þau tækifæri sem hann gefur mér en hv. þingmaður spyr: „Hversu mörg teravött telur ráðherra að megi fá árlega úr vatnsafli hérlendis með hagkvæmum hætti og að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða?“ Svarið er eftirfarandi:

Í mars sl. lagði hv. þm. Mörður Árnason spurningar fyrir mig varðandi þetta sama mál, þ.e. hve mikla raforku megi fá úr vatnsaflsvirkjunum hérlendis með hagkvæmum hætti og að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Í svari mínu rakti ég hvernig tölur um virkjanlegt vatnsafl hefðu verið fundnar allt frá 1981 og hvernig þær hefðu breyst í tímans rás, m.a. vegna breyttra viðhorfa varðandi umhverfisáhrif. Ég taldi mig hafa svarað spurningum um þetta mál á fullnægjandi hátt. Mér er því lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna hv. þingmaður kemur aftur fram með sömu spurningarnar með þeirri einu breytingu að nú vill hann vita mína persónulegu skoðun á því hvað ég telji að megi fá mörg teravött árlega úr vatnsafli hérlendis. Ég geri ráð fyrir að hann eigi við árlegar teravattstundir þ.e. orkuna en ekki aflið.

Í fyrra svari mínu vitnaði ég m.a. í ummæli orkumálastjóra frá ársfundi Orkustofnunar árið 2004 þar sem hann taldi að ef til vill væri nú réttara að tala um 26 teravattstundir á ári í stað 30 áður vegna breyttra viðhorfa varðandi umhverfisáhrif vatnsaflsvirkjana. Í grein orkumálastjóra í Morgunblaðinu 16. maí sl. sem hann nefnir Orka handa álverum segir hann, með leyfi forseta:

„Eins og rifjað var upp í grein sama höfundar hér í blaðinu hinn 6. apríl sl. má ætla að framleiða megi hérlendis 50 teravattstundir af raforku á ári (TWh/a), þar af 25–30 úr vatnsorku en 20–25 eða jafnvel meira úr jarðhita.“

Ég hef enga ástæðu til að draga í efa orð orkumálastjóra í þessu efni enda er Orkustofnun stjórnvöldum til ráðuneytis í orkumálum. Hvaða skoðun ég kann að hafa sjálf er ekki aðalatriði málsins en gefur mér ef til vill tilefni til að spyrja hv. þingmann hvort hann vill ekki upplýsa hvað honum finnst að hann eigi að fá mikla orku úr vatnsaflsvirkjunum ef hann hefur myndað sér skoðun þar um. En meðan ég gegni embætti iðnaðarráðherra tala ég sem iðnaðarráðherra. Ég get ekki skipt um hatt í sambandi við það hvort ég er að tala sem einstaklingurinn Valgerður Sverrisdóttir eða iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir. (Gripið fram í.)

Svo kemur næsta spurning: „Er ráðherra enn þeirrar skoðunar sem hún lýsti í ræðu á iðnþingi 18. mars 2005 að „þegar framleiðsla í stóriðju verði komin í sem svarar til einnar milljónar tonna álframleiðslu á ári verði af ýmsum ástæðum rétt að láta gott heita“?“ Og þarna er hv. þingmaður að vitna til rits Íslensks iðnaðar. Svarið er þetta:

Síðari spurning hv. þm. Marðar Árnasonar vekur einnig furðu þar sem hún er efnislega endurtekin frá 22. mars sl. sem var þá fullsvarað af minni hálfu. Ég get því aðeins endurtekið svar mitt um að tilvitnuð endursögn Íslensks iðnaðar frá mars–apríl 2005 er ekki rétt. Í ræðunni sem ég flutti var ekki minnst á milljón tonn. Ég viðhafði hins vegar þau orð í viðtali við fjölmiðla að loknu iðnþingi 2005 að þegar framleiðsla áls yrði komin í 1 milljón tonna á ári væri af ýmsum ástæðum rétt að draga úr áherslu á þeim vettvangi. Ég stend við þau orð.

Nú horfa mál þannig að hin þrjú starfandi álfyrirtæki í landinu hafa öll lýst yfir áhuga á frekari fjárfestingum í greininni á næstu tíu árum eða svo. Um þetta liggja fyrir viljayfirlýsingar og hafnar eru samningaviðræður milli álfyrirtækjanna og viðkomandi sveitarfélaga annars vegar og orkufyrirtækja hins vegar eins og kunnugt er. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti átti ekki frumkvæði að þessum áformum að öðru leyti en því að ráðuneytið átti aðild að sameiginlegri aðgerðaáætlun varðandi staðarval fyrir álver á Norðurlandi til að leysa ákveðin vandamál og koma í veg fyrir ótímabæra samkeppni sem spillti samstarfi sveitarfélaga í þeim landshluta. Engin ákvörðun liggur fyrir um framkvæmdir að svo stöddu neins staðar og er alls óvíst hvort af þeim verður. Samningum um raforkuöflun sem í verulegum mæli mætti líklega fá frá jarðhitavirkjunum er ekki lokið. Mat á umhverfisáhrifum er í tveimur af þremur tilvikum óunnið. Af þessu má ljóst vera að stjórnvöld draga ekki lengur vagninn í þessum málum en þau beita áhrifum til að beina þeim í skynsamlegan farveg.