132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla.

773. mál
[15:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við þekkjum áldýrkun hæstv. iðnaðarráðherra og einhvers staðar hljóta að vera takmörk, sagði ráðherrann. Maður veltir fyrir sér hvar þau takmörk eru, t.d. vegna náttúruverndarsjónarmiða. Ég velti fyrir mér hvaða afstöðu ráðherrann hefur þá til tveggja lagafrumvarpa sem liggja fyrir þinginu. Annars vegar að fella brott heimildir í lögum til að virkja frekar í Þjórsárverum, fella brott heimild til Norðlingaölduveitu. Hins vegar að fella brott úr lögum heimild Kaupfélags Skagfirðinga og Rariks eða Héraðsvatna hf. um virkjun við Villinganes, fella þá heimild brott úr lögum. Hvaða afstöðu hefur ráðherrann til þess? Ég óttast einmitt afstöðu ráðherrans í ljósi þeirra ummæla sem féllu þegar tekið var viðtal við hæstv. ráðherra á Botnum eða við Hálslón við Kárahnjúkavirkjun. Þá sagði ráðherrann að þar væri engin sérstök náttúrufegurð sem færi undir lón. (Forseti hringir.) Ég hef þess vegna áhyggjur (Forseti hringir.) af öðrum náttúruperlum og spyr (Forseti hringir.) þess vegna um þessar tvær náttúruperlur sem ég nefndi, frú forseti.

(Forseti (JóhS): Ég bið hv. ræðumann að virða ræðutíma.)