132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

afnám verðtryggingar lána.

755. mál
[18:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra las hér svar sem ég er ekki viss um að hún hafi lesið áður. Ég gat ómögulega vitað hvort hún væri með eða á móti því að afnema verðtryggingu eins og fyrirspurnin gengur út á. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það vægi þungt í huga hennar varðandi verðtryggingu að raunvextir verðtryggðra lána væru lægri en óverðtryggðra. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að hugsa aðeins til baka. Fyrir u.þ.b. ári síðan áttum við umræður um verðtryggða vexti. Þar var ég með útreikninga yfir ákveðin tímabil sem sýndu að það er bara ekki rétt að raunvextir verðtryggðra lána séu lægri í öllum tilvikum en vextir á óverðtryggðum lánum. Það kom í ljós þegar farið var að skoða málið að raunvextir verðtryggðu lánanna, sem voru með meiri tryggingar en hin, voru hærri þegar upp var staðið. Því hlýtur ráðherra að þurfa að skoða það í huga sér hvort það sem vegur svona þungt í huga hennar á við rök að styðjast eða ekki.