132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

afnám verðtryggingar lána.

755. mál
[18:13]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því úr salnum að fá að bera af mér sakir eftir þessa undarlegu ræðu hæstv. ráðherra. Mér var það ekki heimilað og því kem ég upp til að ræða fundarstjórn forseta.

Þegar ræðumenn í þessum stól hafa uppi ásakanir í garð þingmanna um karlrembu eða eitthvað slíkt verður að vera einhver fótur fyrir slíku. Þegar slíkar ásakanir eru bornar á mann úr þessum ræðustól hlýtur maður að mega bera af sér sakir. Því kem ég upp undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta.

Sá sem hér stendur hefur haft uppi svipuð orð um aðra ráðherra þegar þeir koma hingað og lesa svör sem virðast vera samin af embættismönnum í ráðuneytum þeirra og (Forseti hringir.) skiptir þá engu hvort um er að ræða konu eða karl.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Frú forseti. Ég veit ekki til þess að ég hafi haft uppi nein ótilhlýðileg orð hér. Ég frábið mér að vera kallaður karlremba í þessum stól þegar engar slíkar sakir eiga við rök að styðjast. Ég hef fullt leyfi til að hafa uppi slík orð um ráðherra sem koma hér og lesa svör embættismanna, hvort sem þeir eru konur eða karlar.