132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skora sömuleiðis á hæstv. forseta fyrir hönd Alþingis og okkar allra að taka þetta mál föstum tökum og legg til að það verði sett í sambærilegan farveg og þann sem gert var á hinum Norðurlöndunum. Þannig var það til að mynda norska Stórþingið sem tók þetta mál alfarið á sínar hendur og stýrði því hvernig Norðmenn rannsökuðu, upplýstu og í framhaldinu brugðust við þeim tíðindum sem þar urðu fyrir um tíu árum, að upp komst um stórfelldar símhleranir, persónulegar njósnir, pólitískar njósnir.

Tillaga hæstv. forsætisráðherra er allt of takmörkuð og tekur aðeins á einum afmörkuðum þætti þessa máls, þ.e. það sem varðar aðgang að gögnum, og er það gott svo langt sem það nær, en ekki á nokkurn hátt á þeim stórfelldu pólitísku njósnum sem hér hafa greinilega verið stundaðar um árabil þar sem almannasamtök, verkalýðshreyfing, stjórnmálahreyfingar og þingmenn hafa verið skipulega hleraðir. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að þetta snýst m.a. um að þinghelgi þingmanna hafi verið rofin og þeir sætt stórfelldum persónulegum njósnum. Þau mál hlýtur að þurfa að rannsaka og leggja öll spil á borðið.

Þetta snýr líka að því að taka til skoðunar varðandi framhaldið með hvaða hætti við tryggjum að slíkir hlutir gerist aldrei aftur. Þar hafa menn yfirleitt gripið til þess ráðs að þjóðþingin sjálf hafa eftirlits- eða vöktunarnefnd sem vakir yfir því að heimildum til persónulegrar upplýsingasöfnunar, svo sem símhlerana, sé aldrei misbeitt í pólitískum tilgangi. Við verðum að taka þessa hluti alvarlega, frú forseti, og það snýr að þinginu að gera það. Það eru öll rök til þess.