132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:40]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að rannsaka þessi mál öll og reyna að gera það með hlutlægum og fræðilegum hætti og reyndar eru fyrir því ýmis fordæmi frá nágrannalöndum að saga kaldastríðsáranna sé rakin og rannsökuð ítarlega. Ríkisstjórnin hefur flutt tillögu um að setja á laggirnar nefnd valinkunnra einstaklinga, þ.e. stjórnarformanns Persónuverndar, þjóðskjalavarðar, forseta Sögufélagsins, skrifstofustjóra Alþingis og formanns stjórnmálafræðiskorar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991, í vörslu opinberra aðila. Þarna verður að byrja. Þessi svokölluðu hlerunarmál eru auðvitað einn þátturinn í þessu. Hins vegar finnst mér að menn eigi að fara varlega í fullyrðingar um þessi atriði, að tala um að brotin hafi verið þinghelgi á mönnum o.s.frv. Við skulum fara varlega í að hrapa að einhverjum niðurstöðum fyrir fram um þetta. Þetta eru margþætt mál og áreiðanlega ýmislegt fróðlegt í þeim gögnum sem ætlunin er að veita fræðimönnum frjálsan aðgang að á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu og mér þætti eðlilegast að þingið reyndi að sameinast um hana. Ef það kemur síðan í ljós þegar skýrslan liggur fyrir að hún nægi ekki þá geta menn gert upp við sig með hvaða hætti best er að halda áfram í málinu.