132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:46]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar í sambandi við þetta mál að rifja upp að fyrir hálfu ári lagði ég fram, ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingar hér á Alþingi, sérstakt lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir óháðum rannsóknarnefndum. En ólíkt þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra eru lagðar til í þessu frumvarpi sérstakar málsmeðferðarreglur og rannsóknarheimildir. Þar er m.a. tekið tillit til samspils við upplýsingalög.

Þess vegna væri að mínu mati tilvalið fyrir slíka rannsóknarnefnd sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að skoða hvort pólitískar símhleranir hafi átt sér stað á tíma kalda stríðsins.

Í íslenskum rétti er nefnilega ekki gert ráð fyrir skipun almennra rannsóknarnefnda að frumkvæði Alþingis sem geta rannsakað mál sem varða mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir er varða almannahag. Þetta frumvarp mundi bæta úr því og mundi setja ákveðinn lagaramma um slíka vinnu og væri því algerlega nýtt úrræði í íslensku samfélagi.

Víða í nágrannaríkjum okkar er einmitt að finna lög um svona óháðar rannsóknarnefndir. Umrætt frumvarp byggist m.a. á danskri fyrirmynd. En ég held að þetta mál sem hér er til umræðu sýni einmitt að við höfum þörf fyrir slík úrræði, þ.e. að eiga möguleika á að skipa óháðar rannsóknarnefndir. Ég legg til að þingheimur leggist nú yfir þetta litla frumvarp og skoði hvort ekki sé hægt að nýta eitthvað úr því eða samþykkja það í heild sinni vegna þess að þetta er án efa ekki síðasta málið sem þarf að rannsaka í þessu samfélagi.