132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hér sé um að ræða sagnfræðilegt viðfangsefni. Gott og vel. En við skulum ekki gleyma því þegar horft er til þeirra tíma sem þessar hleranir taka til þá var því alltaf vísað á bug að þær ættu sér stað. Því var alltaf vísað á bug að hér ættu sér stað pólitískar hleranir. Pólitískar hleranir á að ræða á pólitískum vettvangi.

Fram hefur komið að á meðal þeirra sem njósnað hefur verið um og símar hleraðir hjá voru alþingismenn. Hér er eflaust fyrst og fremst um að ræða þá sem gagnrýnt höfðu hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi og vildu tryggja herlaust og sjálfstætt Ísland.

Þessi mál verður að upplýsa og það er fráleitt annað en að Alþingi hafi forgöngu í þessu efni og málið sé alfarið á vegum Alþingis. Einhliða ráðslag formanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um framgöngu málsins er fráleit.

Reyndar er það svo að liður í þessari rannsókn gæti verið stofnun nefndar á borð við þá sem hér er lagt til. En þar þarf Alþingi hins vegar að koma að. Ég beini þeim orðum til ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra að leitað verði eftir samkomulagi við þingflokkana, fulltrúa allra þingflokka hér á Alþingi um endurskoðun á því þingmáli sem hér hefur verið lagt fram. Það er ekki fullnægjandi eins og það liggur fyrir. Það er enn hægt að breyta því og til sátta legg ég til að ríkisstjórnin leiti til stjórnarandstöðuflokkanna um sátt í þessu máli.