132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði vonast til að virðulegur forseti mundi kannski bregðast við í lok umræðunnar og/eða virðulegum forsætisráðherra, hæstv. forsætisráðherra yrði gefið orðið til að bregðast við því sem að honum var beint.

Okkar óskir snúa að því að þingið taki sjálft þetta mál fyrir og ákveði í gegnum stofnanir sínar hvernig farið verði með málið af þess hálfu. Liður í því gæti að sjálfsögðu verið að ræða hvort samkomulag gæti tekist um breytingar, eftir atvikum afgreiðslu, á þessari þingsályktunartillögu. Ég útiloka það síður en svo að hún í breyttri mynd geti verið hluti af því hvernig tekið sé á málinu í heild sinni.

Tillagan er gölluð. Það er mjög dapurlegt að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki byrja á að hafa þverpólitískt samráð um þetta mál. Það hefði að mínu mati verið hinn eðlilegi framgangsmáti í staðinn fyrir að undirbúa einhliða tillögu af hálfu framkvæmdarvaldsins, að vísu ágætishugmynd í sjálfu sér að fræðimenn fari yfir þessi gögn. En, frú forseti, þeir eiga hvorki að gera það í samráði við Alþingi né í samráði við fulltrúa þingflokka. Þeir eiga að gera það í samráði við ráðuneytin sem áttu hlut að máli á sínum tíma. Bæði utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið eru auðvitað á bólakafi í þessu máli. Það vita allir. Ég verð að segja að það hefði verið algert lágmark að þarna hefðu fulltrúar þingflokka þá líka komið að máli.

Það er alveg augljóst að framkvæmdarvaldið er með þessu að reyna að fara í gegnum Alþingi og fá blessun á að það haldi algerlega utan um málið. Það er sem sagt Alþingi sem á að álykta um að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd í staðinn fyrir að gera það sjálft. Sú nefnd á að starfa í samráði við ráðuneytin. Með þessu er verið að leggja upp klókindalegt verklag að því er virðist til að fara fram hjá Alþingi með málið.

Þetta er nákvæmlega sama byrjunin og var á málinu í Noregi. Þegar norska kratastjórnin reyndi allt sem hún gat til að drepa málinu á dreif enda var hún ekki í góðum málum. Hafði rekið flokkinn og leyniþjónustuna eins og deild hvort í öðru. Hvernig fór það að lokum? Þingið lét ekki bjóða sér það. Norska Stórþingið lét ekki bjóða sér það. Tók málið af ríkisstjórninni og sá alfarið um það sjálft hvernig það væri rannsakað og upplýst.

Ég vona að ekki þurfi að koma til þess hér að taka verði málið af ríkisstjórninni. En það er óhjákvæmilegt að leggja það til ef ríkisstjórnin býður ekki upp á eitthvert samstarf um þetta mál.

Ég legg því til að við ræðum hvort samkomulag geti orðið um breytingar og afgreiðslu á þessari tillögu samhliða því að Alþingi ákveði hvernig það setur málið að öðru leyti í farveg af sinni hálfu.