132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[11:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hlýt að ítreka óskir hv. þingmanna sem hér á undan hafa talað um að forseti svari þeim fyrirspurnum sem beint hefur verið til hennar. Í þeirri þingsályktunartillögu sem menn hafa bent á er það eitt sagt að nefnd eigi í samráði við þrjá ráðherra að ákveða, eins og hér stendur, með leyfi forseta, „frjálsan aðgang fræðimanna“ að tilteknum gögnum. Þetta er sérkennileg notkun á lýsingarorðinu frjáls, sem sé að nefnd og ráðherrar eiga að ákveða hinn frjálsa aðgang. Það sem þetta þýðir á einföldu máli er að það á að ákveða hvernig hindra skuli aðgang manna að þeim gögnum sem hér er um að ræða vegna þess að ráðherrarnir þrír og ríkisstjórnin öll sem ber þetta frumvarp fram getur sem hægast með einu orði opnað aðgang fræðimanna, almennings, fjölmiðlamanna og allra þeirra sem vilja að þeim gögnum. Hún þarf ekki tilstyrk þingsins til þess. Þingið þarf hins vegar að rannsaka þetta sjálft vegna þess að málin snúa í fyrsta lagi að valdsviði þess og í öðru lagi að því sjálfu.

Geir Haarde, hæstv. utanríkisráðherra mun hann vera núna, bætti um betur í þessu máli þegar hann hvatti menn til að fara varlega, til að tala varlega. Ég tek undir þá almennu hvatningu, en um hvað áttu menn að tala varlega? Menn áttu að tala varlega um það að brotin hefði verið þinghelgi á þeim þingmönnum sem menn vita að símar voru hleraðir hjá. Hvað þýða þessi orð hæstv. utanríkisráðherra, Geirs Hilmars Haardes? Þau þýða að hann er að segja okkur að ef til vill sé þinghelgi ekki brotin með því að hlera síma þingmanna. Þetta er, forseti, mál sem forseti þingsins á alveg sérstaklega að íhuga og kanna og segja okkur hvort rétt er. Er það þannig að við þingmenn á þinginu, alveg eins og þeir sem símar voru hleraðir hjá á árum sem liðin eru, að það sé ekki brotin á okkur þinghelgi með því að hlera símana okkar? Er það svo, forseti? Er það svo að það sé rétt hjá Geir Hilmari Haarde, hæstv. utanríkisráðherra, að hann og dómsmálaráðherra megi láta hlera síma þingmanna án þess að þinghelgi sé rofin? Það er þá algjörlega nýr skilningur á því máli og algjörlega nýr skilningur á lýðræðislegum vinnubrögðum í landinu.

Þessi yfirlýsing Geirs Hilmars Haardes ein sér krefst þess að málið verði rannsakað á þingsins vegum, auk þess að hinn frjálsi aðgangur verði ósköp einfaldlega veittur og það geta þeir gert sem sitja á ráðherrastólunum bara núna á eftir ef þeir vilja og þurfa ekki þessa tillögu til.