132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[11:05]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að kalla eftir því að forseti svari þeim fyrirspurnum sem lagt var af stað með í upphafi og kalla eftir svörum við því hvort ekki væri rétt að kalla þingflokksformenn saman til að ræða þetta og reyna að ná pólitískri sátt í málinu vegna þess að fyrir liggur tillaga frá ríkisstjórninni um að Alþingi samþykki að fela stjórnvöldum að rannsaka brot stjórnvalda í fortíðinni. Það er það sem hér liggur fyrir og það er það sem verið er að gera athugasemdir við. (Gripið fram í.) Hér er um mjög alvarlegan tíma að ræða (Gripið fram í.) og miklar deilur sem áttu sér stað og það er mikilvægt, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan, að sannleikurinn komi í ljós. Verið er að kalla eftir að fara þá leið sem er líklegust til að sannleikurinn komi í ljós.

Það er ekki par sannfærandi að stjórnvöld skuli leggja fyrir Alþingi tillögu um að stjórnvöld rannsaki brot stjórnvalda í fortíðinni. Menn eru að tala um, virðulegi forseti, að þetta skuli gert með þeim hætti að líklegra sé að rétt niðurstaða fáist og menn eru að kalla eftir því í umræðu um stjórn fundarins að forseti svari því hvort forseti ætli að kalla saman þingflokksformenn til að ræða það að ná pólitískri sátt í málinu til að tryggja að menn fái trú á því að sú leið sem á að fara sé líkleg til að skila réttri niðurstöðu. Það er kjarni málsins.

Auðvitað geta hinir ýmsu hv. þingmenn hlaupið hér upp og goldið varhuga við því að nokkur umræða fari fram um mál sem menn vilja helst ekki ræða og ekkert óeðlilegt að einhverjir þingmenn geri það. Það er mjög algengt og við þekkjum það að þegar umræðan er óþægileg þá sé rétt að hlaupa hér upp og æpa og góla í ræðustólnum.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram að þessum fyrirspurnum verði svarað. Mér finnst einnig alveg fráleitt að hv. þingmenn séu að skýla sér á bak við að þeir einstaklingar sem eru tilnefndir í tillögunni séu ekki hæfir. Þeir eru fullkomlega hæfir. Hins vegar er spurningin á forræði hvers þessi rannsókn eigi að fara fram og hverjar eru heimildir þeirra sem eiga að skoða þessi mál til að líklegt sé að sannleikurinn komi í ljós, að sannleikurinn geri menn frjálsa, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason fór yfir í ágætri ræðu sinni.