132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég flyt ásamt öðrum þessa þingsályktunartillögu, enda sit ég í Vestnorræna ráðinu. Ég tek undir hana en mér finnst að í þessu samstarfi blasi við víðtækari möguleikar, ekki það að við séum eingöngu að líta til þess að gæta hagsmuna þessara þjóða gagnvart Evrópusambandinu heldur einnig að líta til þess hvað vel er gert hjá öðrum þjóðum í Vestnorræna sambandinu. Ég er á því að við ættum einmitt að líta til þess árangurs sem hefur náðst við fiskveiðistjórn í Færeyjum og einnig að líta í eigin barm og viðurkenna að okkur hefur ekkert gengið með okkar kerfi og líta þess vegna til þeirra þátta sem vel hafa gengið.

Þessa dagana erum við að halda upp á 30 ára útfærslu landhelginnar í 200 mílur. Ég er á því að nú ættu menn að líta yfir farinn veg og sjá að það hefur ekkert gengið við hina svokölluðu uppbyggingu fiskstofnanna. Við veiðum miklu minna magn núna en við gerðum áður en landhelgin var færð út. Það kemur fram í aflatölum að þorskaflinn árið 1978 var um 320 þús. tonn en nú er hann í kringum 200 þús. tonn. Þetta er mínus árangur eftir að við höfum tekið við stjórn og höfum notað það kerfi sem þjóðin er í rauninni á móti, þ.e. kvótakerfið. Að vísu eru tveir flokkar á þingi sem standa mjög fast vörð um þetta kerfi og mér finnst að ef við ætlum að gæta þjóðarhags á hinu háa Alþingi ættum við einmitt að líta til nágrannaþjóða okkar sem hafa sýnt fram á gríðarlegan árangur hvað varðar að stjórna fiskveiðum með öðrum hætti en við gerum. Okkar kerfi hefur í rauninni lagt sjávarbyggðir landsins í rúst allt í kringum landið og valdið mikilli ólgu með þjóðinni og er í rauninni einn mjög stór þáttur í því hversu hefur hallað undan fæti hjá Framsóknarflokknum. Það kerfi sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið vörð um og er guðfaðir að hefur komið óorði á flokkinn og hefur aukið misskiptingu og komið í veg fyrir að sjávarbyggðirnar hafi náð vopnum sínum. Hvers vegna lítum við ekki til þeirra þjóða sem við erum í samstarfi við? Við sjáum að þar er hægt að gera hlutina á annan hátt en gert hefur verið síðustu 20 árin á Íslandi.

Þegar landhelgin var færð út í 50 mílur var þorskafli Íslendinga mun meiri en hann er núna eða í kringum 240 þús. tonn. Þá veiddu útlendingar liðlega 170 þús. tonn. Aflinn árið 1972 var um 400 þús. tonn. Við erum því með mínus árangur. Ég er á því að við eigum að nýta það samstarf sem við erum að ræða hér og leggja grunninn að með þessari þingsályktunartillögu til að ná betri árangri fyrir Íslendinga. Ég er á því eftir að hafa farið og m.a. kynnt mér árangur Færeyinga í Brussel að þar er einmitt áhugi á því að skoða hvort ekki megi taka upp færeyska kerfið vegna þess að alls staðar þar sem hefur verið reynt að stýra fiskveiðum með kvótum, það er ekki bara á Íslandi heldur einnig í Norðursjónum og víðar í Norður-Atlantshafinu, hefur það skilað mínus árangri og alltaf á að skera niður.

En það vill svo vel til að það er ljós í myrkrinu og það er í Færeyjum þar sem aflinn er svipaður og ívið meiri en áður en landhelgi landa var færð út og áður en Íslendingar fóru þá leið að stýra fiskveiðum með kvótum þannig að það er hægt að gera þetta betur og það væri óskandi ef við gætum notað þetta samstarf ríkja, vestnorræna samstarfið, til að læra af þeim þjóðum sem hafa náð árangri, t.d. Færeyingum, og gera það vegna þess að augu Evrópu eru að opnast fyrir þessu. Ég heyri að það er mikill áhugi í Skotlandi á að fara þá leið að vera ekki að ákveða fyrir fram hvað eigi að koma upp úr hafinu heldur láta veiðina ráðast af því sem náttúran gefur hverju sinni vegna þess að það hefur því miður komið í ljós að stofnmælingar eru mjög óáreiðanlegar. Það er alltaf verið að byggja upp fiskstofna og með þessum stofnlíkönum er jafnvel sagt að ef menn veiði minna núna þá fái þeir meira á næsta ári. En við sjáum að þetta hefur ekki gengið eftir vegna þess að veiðin hefur bara gengið niður á við síðan menn fóru að stýra veiðum með þessum hætti.

Mér finnst þetta vera umhugsunarefni og ég sé að hv. formaður utanríkismálanefndar eða varaformaður sem situr hér er mjög spenntur yfir þessari tölu minni og ég ber þá von í brjósti að þessi ræða verði til þess að menn fari að hugsa málið, menn séu ekki fastir í einhverju sem skilar ekki nokkrum árangri og ekki síst þegar við erum að halda upp á afmæli útfærslu landhelginnar. En jafnvel þá er forsætisráðherra Íslendinga að tala um, frú forseti, að hleypa útlendingum í að geta keypt sig inn í auðlindina. Slíkt tal er verið að bera á borð fyrir þjóðina nú, hæstv. forsætisráðherra, guðfaðir kvótakerfisins, vill opna fyrir sölu á fiskveiðiheimildum til útlendinga nú á 35 ára afmæli þess þegar þjóðin barðist fyrir því að ná yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni. Mér finnst þetta vera mjög mikið umhugsunarefni og ég vonast til þess að þeir ágætu hv. þingmenn sem sitja í Vestnorræna ráðinu noti ferðir sínar til Færeyja til að kynna sér það sem vel er gert.

Það sem við höfum verið að gera undanfarin 20–30 ár hefur ekki gengið upp. Menn hafa verið að spá fyrir um afla 10 jafnvel 20 ár fram í tímann út frá einhverjum reiknilíkönum. En þegar menn geta ekki spáð fyrir um afla næsta árs, eins og hefur sýnt sig hvað eftir annað, hafa týnt fiski, ofreiknað og ég veit ekki hvað og hvað, þá held ég að vonlítið sé að þeir geti spáð fyrir um afla áratugi fram í tímann. Þetta er eins og ef Veðurstofu Íslands tækist ekki að spá fyrir veðrið í júlí þá mundi hún spá fyrir um veðrið í júlí á næsta ári. Þetta er bara vitleysa og það sjá allir en samt sem áður virðist vera mjög erfitt fyrir þessa flokka, kvótaflokkana, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk að ræða þetta málefnalega. En ég vonast svo sannarlega til þess að menn noti þau tímamót sem nú eru, sem hafa orðið við útfærslu landhelginnar, til að halda upp á það og líta yfir farinn veg og sjá einfaldlega að menn hafa ekki gengið til góðs í þessu, þetta hefur ekki skilað árangri. Ég vona að menn noti Vestnorræna ráðið ekki eingöngu til að hugsa um hagsmuni gagnvart Evrópu en skoði hver hjá öðrum hvað vel er gert. Það er ýmislegt vel gert í Færeyjum sem við ættum að draga lærdóm af og ég vona svo sannarlega að það verði gert. Annað væri fáránlegt.

(Forseti (JBjart): Það vill svo til að klukkan er vitlaust stillt og þingmaðurinn hefur lokið þeim tíma sem hann hefur í þessari umræðu sem eru átta mínútur. Forseti fer fram á við hv. þm. Sigurjón Þórðarson að hann ljúki máli sínu.)

Ég þakka fyrir þessa áminningu enda var ég langt kominn með ræðu mína og henni var í rauninni lokið. Ég vil bara ítreka orð mín að hér er stórt mál sem snýr að hagsmunum þjóðarinnar, þ.e. hvernig við stýrum fiskveiðum, þeirri atvinnugrein sem leggur grunninn að velferð þjóðarinnar.