132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:21]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Þingforseti. Ég tel að það mál sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um sameiginleg markmið í fiskveiðimálum og þá aðallega eins og það snýr að Evrópusambandinu, sé ágætismál og vel til þess fallið að við reynum að auka samstarf við Færeyinga og Grænlendinga varðandi fiskveiðistjórnarmál. Við eigum samliggjandi lögsögur við þessi ríki og ekki er lengur á móti mælt að fiskstofnar fara inn og út úr lögsögum ríkjanna. Og þó að því hafi lengi verið haldið fram að þorskurinn m.a. héldi sig aðeins innan 200 mílna lögsögu Íslands þá held ég að allir viti í dag að svo er ekki og að sá mikli nytjastofn Íslendinga sem iðulega hefur verið að gefa 40% af útflutningsverðmæti fiskafurða er að hluta til flökkustofn alveg eins og ufsinn og margar aðrar fisktegundir.

Ég hygg að ekki sé seinna vænna að fara að ræða þessi mál við nágrannaríki okkar, Grænlendinga og Færeyinga, og sérstaklega hygg ég að nauðsynlegt sé fyrir okkur í þessari stöðu að fara að ræða við Grænlendinga um nýtinguna og ráðstöfunina því að við vitum að Grænlendingar hafa samið sérstaklega við Evrópusambandið um veiðiaðgang skipa þess bandalags inni í grænlensku lögsögunni. — Nú hoppar tíminn á klukkunni ýmist aftur á bak eða áfram, hæstv. forseti, og veit ég varla hvernig ég á að haga ræðu minni — en ég tel nauðsynlegt að víðtæks samráðs verði leitað við Grænlendinga. Það er næsta víst, hæstv. forseti, að miðað við þá þróun hitafars sjávar sem er í Norðurhöfum nú þá stefnir í að þorskstofninn við Grænland vaxi á nýjan leik vegna þess að af sjálfu leiðir að um leið og hlýnar í Norðurhöfum leitar okkar þorskur yfir til Grænlands og þangað er seiðarek og þangað færist auðvitað ungfiskur á ætislóðir fyrir vestan og norðan land eftir straumum, staðháttum og fæðuframboði.

Hæstv. forseti. Þetta eru mál sem varða okkur miklu í framtíðinni og þó að þorskveiðar hafi ekki verið stór þáttur í veiðum við Grænland á undanförnum árum þá hygg ég að það geti breyst mjög á komandi árum og muni skipta okkur miklu hvernig til tekst. Ég hvet því eindregið til þess að það samstarf sem hér er lagt upp með milli Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga verði eflt sem frekast má verða og ekki eingöngu í afstöðunni til Evrópusambandsins eða til að styrkja stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu heldur ekki síður til að styrkja samstarf, stöðu, samskipti og stjórnunarmöguleika á fiskstofnum í lögsögum þessara ríkja þar sem algerlega er ljóst að við eigum margra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sameiginlegir hagsmunir þessara ríkja hafa farið vaxandi á undanförnum árum, bæði varðandi notkun okkar og veiðar á kolmunnastofninum, norsk/íslensku síldinni með Færeyingum og sameiginlegar veiðar á loðnustofninum, svo dæmi séu tekin, fyrir utan að Færeyingar hafa veiðiheimildir hér við land. Loðnustofninn er sameiginlegur stofn okkar og Grænlendinga og með hlýnandi sjó er engan veginn vitað hvernig loðnuveiðar og loðnugöngur munu þróast á komandi árum þannig að það er mjög margt sem knýr á um að hér verði vel staðið að verki og þess vegna fagna ég því að þessi tillaga skuli vera komin fram en legg áherslu á að þótt hér sé í fyrstu talað um markmið gagnvart Evrópusambandinu þá byrji þessi lönd á að vinna betur saman og skýra stefnumál sín innbyrðis og reyna að ná betur saman um nýtinguna vegna þess að mér býr í grun að á komandi árum geti skipt verulegu máli hvernig tekst til með samstarf okkar við Grænlendinga.

Við höfum ágætt samstarf við Færeyinga um veiðar í færeysku lögsögunni og þeir hjá okkur en það hafa ekki verið gerðir eins hagkvæmir samningar við Grænlendinga að öðru leyti en því er varðar loðnuna en við eigum auðvitað marga sögulega sameiginlega stofna. Við getum nefnt grálúðustofninn sem er sennilega sá fiskstofn nú sem hvað mest er ofveiddur, ef hægt er að draga þá ályktun sem má draga af veiðunum þegar farið er að stunda harða úthafsveiði og aflinn á togstund er jafnvel kominn í 300 kg vegna mjög hás verðs á grálúðu en samt halda menn áfram veiðum. Það er vegna þess að við erum með magnkvótakerfi þar sem við úthlutum kvótum og þegar magnkvótakerfið hittir ekki á líffræðilega tengingu þá verður kvótakerfið sjálfkrafa harðasta sóknarkerfi sem hægt er að reka í fiskveiðum, þ.e. ef saman fer há verðþróun. Það er akkúrat það sem er að gerast í grálúðunni. Þar keyra menn einhverja þá hörðustu sókn sem fiskstofn verður fyrir á Íslandsmiðum þar sem afli á sóknareiningu er orðinn mjög lítill en verðið er hátt, kvótarnir nægir og langt umfram það sem okkur tekst sennilega að veiða og þá breytist skömmtunarkerfi kvótans í harðasta sóknarkerfi sem menn geta notað við nokkrar veiðar. Þetta vita allir sem vilja vita og það er nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því að ástand þessa stofns, sem talinn er sameiginlegur stofn í Norður-Atlantshafi, frá Kanada í vestri til Færeyja og Svalbarða í austri, er ekki með góðu lagi eins og nú standa sakir og auðvitað þyrfti sérstaklega að efla þar rannsóknir og það sameiginlegar rannsóknir í lögsögu Íslendinga og Grænlendinga.