132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofninum í Norður-Atlantshafi.

542. mál
[11:40]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lýsi mig sammála þessari tillögu og tel að hér sé verið að hreyfa mjög þörfu máli. Hér er talað um bæði stofnstærðir friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður-Atlantshafi eins og það er orðað í tillögunni. Ég hygg einmitt að nauðsynlegt sé að fara að taka upp víðtækar rannsóknir á stofnum hvala sem friðaðir hafa verið í áratugi. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna hvalategundina hnúfubak sem var friðuð árið 1956, ef ég man rétt, og hefur verið alfriðuð síðan. Það er samdóma álit allra sem stundað hafa fiskveiðar við Ísland og ég hygg einnig hafrannsóknarmanna að þessari hvalategund, hnúfubaknum, hafi fjölgað mjög á síðustu árum og áratugum. Ég get talað af eigin reynslu, sem fyrrverandi skipstjóri til margra ára, um þá fjölgun sem við sáum á fiskimiðunum við Ísland frá því á árunum milli 1960 og 1970 og til þess tíma sem ég stundaði fiskveiðar eða fram undir 1995. Ég heyri það á mörgum kollegum mínum úr skipstjórnarmannastétt að þeir eru sannfærðir um að hnúfubaksstofninn sé orðinn verulega stór við Ísland og menn verða auðvitað mjög varir við hnúfubakinn við veiðar á loðnu og fleiri uppsjávartegundum þar sem þessi dýr halda sig og nýta þessa fæðustofna.

Friðun einhverra dýrategunda getur aldrei varað að eilífu, um ár og aldir. Við nýtum lífríki sjávar á þann hátt sem við gerum og það gera allar þjóðir í Norður-Atlantshafinu og samspil í lífríki sjávar hefur auðvitað áhrif þar á. Það er deilt um hve mikið það er og hversu víðtækt það er en það er alveg ljóst að það hefur áhrif og okkur ber auðvitað að reyna að öðlast þekkingu á því hvernig þetta samspil er. Það hefur því miður ekki verið gert varðandi hnúfubaksstofninn á undanförnum árum. Við höfum ekki stundað þar neinar tilraunaveiðar og vitum í raun og veru sáralítið um stofninn og nýtingu hans á fæðuuppsprettu sjávarins.

Þetta var eitt atriðið sem ég vildi nefna, hæstv. forseti. Ég tel hins vegar að þessi tillaga hefði mátt vera víðtækari, hún hefði mátt snúa að selastofnum í Norður-Atlantshafi sem eru mjög lítið nýttir núna með veiðum miðað við það sem áður var. Það voru einkum Norðmenn sem stunduðu veiðar á úthafssel í Norður-Atlantshafi, þeir byrjuðu þær veiðar í svokölluðum vesturís norður af Jan Mayen þar sem farið var inn í ísinn snemmvetrar og selagöngunum og reki íssins fylgt suður í Grænlandssund fram á vor. Ég held að aðeins eitt skip hafi stundað þessar selveiðar í vetur. En það hefur komið í ljós og hefur verið sagt frá því í blöðum í viðtölum við skipstjórann sem stjórnaði þessu skipi að mjög mikið af sel sé í sundinu á milli Íslands og Grænlands og það væri í raun og veru ekki nema sex tíma sigling frá Ísafirði og út á selamiðin við ísröndina og inni í ísnum í sundinu milli Íslands og Grænlands. Það vill svo til að þessi staðsetning er fast upp við fiskimið okkar Íslendinga á þorski og uppeldisslóð þorsksins fyrir vestan og norðan land og af sjálfu leiðir að vaxandi selastofn hlýtur að hafa áhrif á notkun okkar og möguleika til að nýta lífríki okkar á þann hátt sem við viljum.

Ég vil benda á það í lok máls míns að ég tel að við hefðum einnig átt að huga að öðrum sjávarspendýrum í þessari tillögu eins og selunum. Stofnar vöðusels og blöðrusels fara örugglega mikið vaxandi í ísnum og við ísröndina norður af landinu og það er auðvitað þekkt að þegar slíkir dýrastofnar vaxa mikið fara þeir í svokallaðar ætisgöngur, ganga inn á fiskimiðin til öflunar viðurværis og gera oft usla við veiðar fiskimanna og eru stórtækir í nýtingu á stofnum sem gefa þeim mikla orku. Þar er þorskurinn auðvitað í ágætisuppáhaldi og oft sjá fiskimenn selbitinn fisk þar sem selurinn tekur eingöngu kviðinn, hrognin og lifrina sem gefur mesta orku en lætur allt annað eiga sig. Sama er auðvitað þekkt í grásleppuveiðum þar sem selurinn nýtir sér fyrst og fremst það sem mesta orku gefur en lætur grásleppuna óétna að öðru leyti.

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum að taka þetta til nánari skoðunar varðandi sjávarspendýrin almennt. Ég hvet til samþykktar þessarar tillögu en ítreka að mér finnst að hún hefði mátt vera víðtækari.