132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

610. mál
[12:05]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2006.

Í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál fékk nefndin á sinn fund embættismenn úr utanríkisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti auk fulltrúa frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sambandi íslenskra fiskframleiðenda, Vélstjórafélagi Íslands og Landssambandi smábátaeigenda.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2006 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 16. janúar síðastliðinn.

Í samningnum er, líkt og í samningi sömu aðila á síðasta ári, kveðið á um að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2006/2007 að veiða allt að 10.000 lestir af loðnu innan lögsögu Íslands úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda. Kveðið er á um gagnkvæmar heimildir skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á árinu 2006 og að íslenskum skipum verði heimilt að veiða allt að 1.300 lestir af makríl og 2.000 lestir af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2006 auk ákvæðis um gagnkvæma heimild til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu hvors aðila. Sem fyrr er í samningnum kveðið á um gagnkvæma heimild skipa hvors aðila til veiða á norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2006. Samningurinn kveður því á um allar veiðar á uppsjávarfiski í lögsögu hvors aðila fyrir komandi veiðitímabil. Loks er rétt að geta þess að sjávarútvegsráðherra er falið að taka til athugunar og ákvörðunar fyrir 20. júní næstkomandi hvort takmörkunum á vinnslu á loðnu um borð í færeyskum skipun og löndun hennar verði aflétt.

Loks getur nefndin þess að veiðiheimildir á grundvelli samnings landanna frá 1976 um botnfisksveiðar verða óbreyttar á milli ára eða 5.600 lestir af botnfiski.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Að þessu nefndaráliti standa hv. alþingismenn Halldór Blöndal, Össur Skarphéðinsson, Magnús Stefánsson, Drífa Hjartardóttir, Bjarni Benediktsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir.