132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

610. mál
[12:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekki tilefni til að hafa langt mál um framlengingu eða árlega endurnýjun þessa hefðbundna samnings milli Íslands og Færeyja um gagnkvæm veiðiréttindi og veiðiheimildir hvað uppsjávarfiska varðar, en það er fyrst og fremst efni þessa samnings. Þó eru nokkur atriði í þessum samskiptum og umhverfinu sem kannski væri ástæða til að drepa hér á.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að ástæða er til að minna á og hafa alltaf í huga þegar við ræðum þessi mál að þessi traustu og góðu samskipti Íslands og Færeyja á sviði fiskveiðimála hafa reynst báðum þjóðum ákaflega gagnleg held ég að sé óhætt að fullyrða. Lengi vel framan af var það svo að fyrst og fremst var um einhliða heimildir af hálfu Íslendinga að ræða til handa Færeyingum og það er nú næsta fátítt í samskiptum þjóða að þannig sé staðið að málum. Mér finnst að við Íslendingar megum alveg vera stolt af því að þegar útfærsla landhelginnar olli miklum breytingum hvað varðaði aðgang annarra ríkja hér að hafsvæðinu við Ísland þá sýndum við frændum okkar og vinum Færeyingum það veglyndi að þeir héldu umtalsverðum veiðiréttindum eftir innan íslensku sérefnahagslögsögunnar einir þjóða. Það var þeim ákaflega mikilvægt enda höfðu þeir byggt sinn sjávarútveg, ekki síst báta- og línubátaútgerðina í minni bæjum Færeyja, að verulegu leyti á þessum veiðiheimildum. Það hefur dregið nokkuð úr þeim eðli málsins samkvæmt á síðustu árum, í raun í aðalatriðum í takt við, því miður, niðurskurð á botnfisksveiðiheimildum við Ísland. Þó standa eftir um 5.600 tonn af slíkum heimildum þó að það sé í sjálfu sér ekki beint efni þessa samnings.

Það komu upp raddir um að fella þessar heimildir alveg niður. Reyndar var uppi um það kröfugerð af hálfu ónefndra aðila á ákveðnu árabili að Íslendingar felldu með öllu niður aðgang Færeyinga að íslensku lögsögunni. Sem betur fer varð það nú ekki. Svo gengu þeir tímar í garð að allt í einu breyttust aðstæður í samskiptum ríkjanna og Íslendingar fóru að hafa mikið gagn af tvíhliða samskiptum sínum við Færeyinga á þessu sviði og einkum og sér í lagi á sviði veiða á uppsjávarfiskum. Þannig var það að ákveðin ár meðan ekki voru samningar, eða áður en samningarnir tókust sem voru síðan í gildi um veiðar á t.d. norsk-íslensku síldinni, náðu íslensk skip að veiða verulegan hluta af sínum einhliða kvóta í færeyskri lögsögu eða á grundvelli samningsins við Færeyjar. Og áfram er það þannig að mun meira jafnvægi er í samskiptum ríkjanna nú vegna umtalsverðra veiða Íslendinga á norsk-íslenskri síld, kolmunna og jafnvel fleiri tegundum á færeyska hafsvæðinu á móti þeim veiðiheimildum sem Færeyingar hafa hér en áður var. Það má jafnvel færa fyrir því rök að sum árin hafi þessi samskipti komist í raun í fullt jafnvægi, þ.e. að verðmætin sem við Íslendingar höfum fengið með veiðum á færeyska hafsvæðinu hafi orðið svipuð eða sambærileg þeim sem Færeyingar hafa fengið hér og er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja.

Nú er það því miður þannig að ekki eru í gildi samningar á nýjan leik um norsk-íslensku síldina og áfram er að því leyti til svipuð staða og var á fyrstu árunum eftir 1994 þegar hún fór að veiðast á nýjan leik utan norsku lögsögunnar og íslensk skip hófu á nýjan leik eftir langt hlé að veiða úr þeim stofni. Þess vegna er það áfram ákaflega mikilvægt að þessar þjóðir starfi vel saman og það er þeim báðum til hagsbóta fyrir utan það að þannig á það auðvitað að vera í samskiptum grannríkja og vinaþjóða.

Ótal mörg önnur sameiginleg hagsmunamál Íslands og Færeyja skipta hér líka máli, samskipti við aðra aðila eins og Noreg, Evrópusambandið, Rússland. Enginn vafi leikur á því að góð samskipti ríkjanna og það hvernig Íslendingar hafa staðið að málum gagnvart Færeyingum auðveldaði lausn deilunnar um miðlínuna milli Íslands og Færeyja. Þannig mætti áfram telja.

Það er minnst á það í nefndarálitinu og getið um það í tillögunni að íslensk stjórnvöld hafa fallist á þá ósk Færeyinga að taka til skoðunar þær takmarkanir sem eru á veiðum vinnsluskipa af hálfu Færeyinga og reyndar allra annarra innan íslensku lögsögunnar. Það er ekkert óeðlileg ósk eða krafa af hálfu Færeyinga að þetta sé skoðað. Skiljanlega finnst þeim blóðugt að mega ekki nýta sinn hluta veiðiheimildanna hér með þeim hætti sem mest verðmætin gefur, þ.e. að vinna afla um borð til manneldis. Á hinn bóginn er hér um gríðarlega mikilvægt hagsmunamál samkeppnisaðila á markaði að ræða og það er alveg ljóst að eins og t.d. hefur árað í uppsjávarveiðunum núna síðustu eitt, tvö árin þá er í raun sjálfur grundvöllur þeirra veiða eða afkoman í þeim veiðum svo háð þeim hluta tímans þegar mögulegt er að vinna aflann til manneldis, frysta loðnuna um borð eða í landi, að þarna er tekist á um mikla og ríka hagsmuni og í raun afkomu í greininni. Auðvitað hljótum við því að fara varlega og semja ekki af okkur í slíkum samskiptum. Þá má náttúrlega minna á að enn er staðan sú að þessar einhliða botnfisksveiðiheimildir eru til staðar og í þeim eru auðvitað líka fólgnir miklir hagsmunir og má náttúrlega færa fyrir því rök að staða Færeyinga sé talsvert önnur í efnahagslegu tilliti gagnvart þeim en hún var fyrir 30 árum. Enn er það þó þannig að ákveðin byggðarlög í Færeyjum eru mjög háð þessum heimildum og þetta er kannski meira orðin spurning um sanngirni og skilning á högum þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga en að færeyskt efnahagslíf, sem hefur blómgast og stendur sterkt, sé eins háð þessum heimildum og í upphafi var.

Ég lýk ræðu minni eins og öllum sem um þetta fjalla á því að mæla áfram með því og vera talsmaður þess hér eftir sem hingað til að við Íslendingar stöndum myndarlega að verki í sambandi við öll samskipti okkar við Færeyinga og leggjum okkar af mörkum til þess að þau geti áfram verið jafngóð og farsæl og þau hafa verið.