132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:05]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ansi hrædd um að lægstlaunaða fólkið í landinu sé ekki sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að mesta vandamálið sem við sé að eiga sé gríðarleg hækkun launa. Það er þetta fólk sem ætlar sér auðvitað núna í nóvember þegar launaliðir kjarasamninga verða lausir að sækja sér launahækkanir til að vega upp á móti ýmsum þeim skerðingum sem þessir hópar hafa orðið fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég er sannfærð um að lífeyrisþegar, hvort sem það eru örorkulífeyrisþegar eða ellilífeyrisþegar, séu ekki sammála þingmanninum um að hækkunin á lífeyri þeirra sé eitt stærsta vandamálið í íslensku samfélagi í dag. Vegna þess að við vitum að um 30% allra ellilífeyrisþega lifa á tekjum sem eru undir 110 þús. kr. á mánuði. Ég get ómögulega skilið það hvernig þingmaðurinn getur haldið því fram að þetta sé eitt stærsta vandamálið sem við sé að eiga í íslensku samfélagi í dag.

Varðandi gjaldtöku fyrir ríkisborgararétt á Norðurlöndunum er rétt að það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að gjaldtakan er hærri sums staðar á Norðurlöndunum. En það segir bara enga sögu. Það er líka þannig, af því ég var að tala um lífeyri, að lífeyrisgreiðslur eru með öðrum hætti annars staðar á Norðurlöndum en hér. Ég er viss um að það væru margir sem vildu gjarnan skipta á þeim réttindum sem eru hér í þeim efnum og því sem er í Svíþjóð þar sem engar skerðingar eru í lífeyriskerfinu og kerfið öðruvísi upp byggt. Það segir því auðvitað ekki neina sögu þó ágætt sé að hafa það til viðmiðunar.

Maður hefði nú talið að menn gætu kannski fetað sig eitthvað áfram í þessu án þess að fara í þær gríðarlegu hækkanir sem hér er um að ræða á umræddum gjöldum.