132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:10]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að ýmsum þáttum í ræðu sinni og má segja að hún hafi hafið svona almenna skattapólitíska umræðu sem ég ætla kannski ekki að fara djúpt ofan í.

Ég hjó samt eftir að í máli sínu vék hún sérstaklega að hækkun skattleysismarka sem hún taldi ófullnægjandi miðað við hvernig laun hafa hækkað í samfélaginu. Í því sambandi minnist ég þess að þau mál voru töluvert til umræðu fyrir síðustu kosningar. Flokkarnir létu í ljós skoðanir að þessu leyti. Ég man ekki betur en Samfylkingin nefndi að loknu vorþingi sínu 2003 nokkuð ákveðnar hugmyndir í þeim efnum sem ég er viss um að hv. þingmaður getur kannski rifjað upp með okkur.

Ég man ekki betur en Samfylkingin hafi lagt upp fyrir kosningarnar að á kjörtímabilinu ættu skattleysismörkin, sem eins og við þekkjum byggjast á tvennu, annars vegar persónufrádrættinum sem er ákveðin upphæð í skattalögum og hins vegar tekjuskattshlutfallinu, ættu að hækka um sem nemur 10 þús. kr., úr um það bil 70 þús. kr. í um 80 þús. kr.

Nú er það svo að þetta hefur gengið eftir í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattalögunum á þessu kjörtímabili hafa leitt til þess að skattleysismörkin hafa hækkað um það sem Samfylkingin talaði um fyrir síðustu kosningar. Manni leikur því nokkur forvitni á að vita hvort Samfylkingin hafi einhvern tíma síðar tekið upp aðra stefnu varðandi þennan þátt en birtist síðustu vikurnar fyrir síðustu kosningar.