132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:13]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur alveg fyrir að fyrir síðustu kosningar, eftir að hafa farið ýmsa hringi í kringum þessi skattamál, varð það niðurstaða af hálfu Samfylkingarinnar að það væri markmiðið að á þessu kjörtímabili hækkuðu skattleysismörkin um 10 þús. kr., úr um það bil 70 þús. kr. í um 80 þús. kr.

Nú hefur það gerst að skattleysismörkin eru komin í þessa fjárhæð og raunar eru þau nú hærri ef tekið er tillit til frádráttar vegna greiðslu lífeyrisiðgjalda sem hefur verið aukin á þessu kjörtímabili, sú heimild sem er fyrir hendi hvað það varðar. Skattleysismörkin eru því hærri hjá mjög stórum hópum launafólks.

Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort að það sé einhver samkvæmni í málflutningi Samfylkingarinnar þegar síðan er komið og kvartað yfir að þetta markmið, sem Samfylkingin setti fyrir síðustu kosningar, sé nú í höfn. Það er komið og kvartað yfir því að það hafi ekki verið gert meira.

En þetta er nú einmitt það sem Samfylkingin treysti sér til að gera á þessu kjörtímabili, að hækka skattleysismörkin um 10 þús. kr. Það hefur verið gert. Ég hlýt því að undrast að Samfylkingin skuli nú koma og kvarta ákaflega yfir því að skattleysismörkin hafi ekki verið hækkuð miklu meira en þeir sjálfir lögðu til fyrir síðustu kosningar.